Tímabilið hefst hjá FSu og Hamri

Fyrsta deild karla í körfuknattleik hófst í gærkvöld með einum leik, en fyrstu leikir sunnlensku liðanna, FSu og Hamars, eru í kvöld.

FSu leikur í kvöld gegn Haukum og byrjar leikurinn kl. 19.15 í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi. Liðið er mikið breytt frá síðasta tímabili og auk þess hefur nýr þjálfari tekið við liðinu.

Sá heitir Erik Olson og er Bandaríkjamaður. Hann kom til FSu frá Ástralíu þar sem hann var spilandi þjálfari á nýliðnu tímabili.

FSu hafa fengið tvo sterka leikmenn til liðsins, þá Ara Gylfason og Daða Berg Grétarsson.

Hamar fer í Kópavoginn og mætir Augnabliki. Leikurinn byrjar kl. 19.15.

Lárus Jónsson er enn þjálfari liðsins, en undir hans stjórn náði liðið öðru sæti á síðasta tímabili.

Hamarsmenn hafa fengið Örn Sigurðarson til liðs við sig frá Haukum, en honum er ætlað að fylla skarð Svavar Páls Pálssonar sem lagði skóna á hilluna í vor.

Umfjallanir um leikina munu birtast hér á síðunni í kvöld.

Fyrri greinHátíð í bæ í sjötta sinn
Næsta greinForsölu lýkur í kvöld