Tilvalið að kíkja á bókasafnið í vetur

Lesið fyrir lita bróður. Ljósmynd/Aðsend

Bókasafn Árborgar á Selfossi er nú opið samkvæmt vetrartíma frá kl. 9:00 til 19:00 alla virka daga og frá 10:00-14:00 á laugardögum.

Á þessum tímum sem lítið er hægt að ferðast nema innanlands og innanhúss er tilvalið að kíkja á Bókasafnið til tilbreytingar. Þemað í barnadeildinni núna er Egyptaland og þangað er hægt að ferðast ókeypis og  láta fara vel um sig og glugga í blöð og bækur með börnunum.

„Það eru allir velkominir á safnið, sem er miðsvæðis í bænum og tilvalinn staður til að hittast á til skrafs og ráðagerða, til að njóta samveru eða einveru allt eins og hverjum hentar,“ segir Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður bókasafnsins.

Hún minnir á að þeir sem eiga bókasafnskort geta líka nýtt sér rafbókasafnið og aðstoða starfsmenn korthafa við það. Einnig stendur yfir falleg sýning í Listagjánni, frá nemendum í Fjölbrautaskóla Suðurlands og eru áhugasamir hvattir til að koma og sjá hvað unga fólkið er að fást við. Sýningin stendur til 30. september.

„Fyrir þá sem vilja spjalla um bækur þá hefst leshringur Bókasafnsins fimmtudaginn 2. október og fyrsta bók vetrarins verður Uppvöxtur Litla trés eftir Forrest Carter. Það eru allir velkomnir og við hittumst í lessal Bókasafnsins kl. 17:15. Leslisti bókaklúbbsins verður birtur fljótlega á Facebook síðu safnsins og þar eru alltaf allar helstu fréttir af starfinu og hægt að senda skilaboð ef þið hafið einhverjar skemmtilegar hugmyndir sem þið viljið koma á framfæri varðandi starfsemi bókasafnsins okkar allra,“ segir Heiðrún Dóra ennfremur.

Fyrri greinFrábærir í fjórtán mínútur
Næsta greinSelfyssingar niðurlægðir á heimavelli