Tilraunaræktun á berjum á Suðurlandi

Norræna Atlantssamstarfið, NORA, styrkir norrænt samstarfsverkefni um berjarækt annað árið í röð. Ræktunin fer m.a. fram á þremur garðyrkjustöðvum á Suðurlandi.

“Meginverkefni NORA er að efla búsetu og atvinnulíf á norðurslóðum. Þess vegna viljum við styrkja verkefni sem þetta, því við erum sannfærð um að slíkt geti skapað ný efnahagsleg tækifæri fyrir íbúana,” segir Inga Ósk Jónsdóttir, sem hefur verið formaður NORA undanfarið ár.

Berjaframleiðsla til sölu á markaði er nokkuð sem venjulega er tengt við útiræktun á stórum garðyrkjustöðvum á svæðum með stöðugt veðurfar. Með fjárhagslegri aðstoð NORA er nú í gangi tilraunaræktun berja á öllu Norður-Atlantssvæðinu.

Íslenskir þátttakendur í verkefninu eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Bændasamtökin, Garðyrkustöðin Engi í Laugarási, Garðyrkjustöðin Kvistar í Reykholti og Gróðrastöðin á Böðmóðsstöðum í Laugardal.

Tilraunaræktin er gerð í plastgöngum en þau tryggja gæði og stöðugleika í ræktuninni. Markmiðið er m.a. að í framtíðinni verði mögulegt að kaupa fersk ber, framleidd í heimabyggð allstaðar á NORA-svæðinu.