Tillaga að sameiningu SASS og AÞS

Stjórn Sambands sunnlenskra sveitarfélaga mun gera það að tillögu sinni á ársþingi sambandsins að sameina starfsemi Atvinnuþróunarfélags Suðurlands og SASS
undir eina stjórn og skrifstofu.

Elfa Dögg Þórðardóttir formaður SASS sagði í samtali við Sunnlenska að ástæða tillögunnar væri sú að þarna væri um mjög skylda starfsemi að ræða og fælist hagkvæmni í að sameina reksturinn. Þá liggur fyrir að umsjón styrkjaúthlutunar færist í hendur landshlutasamtaka, og því verða bæði vaxtarsamningur og menningarsamningur við ríkið í umsjá SASS á næsta ári ef að líkum lætur.

Þá tengist tillögunni önnur tillaga sem lögð verður fyrir þingið um fjölgun stjórnarmanna í SASS úr sjö í níu. Að sögn Elfu tengist það því að stjórn Atvinnuþróunarsjóðs verði lögð niður og um leið færast verkefni þeirrar stjórnar í hendur stjórnar SASS.