Tilkynnti Neyðarlínu að ferðafélagarnir hefðu rænt sér

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Maðurinn sem björgunarsveitir og Landhelgisgæslan leituðu að í Þjórsárdal aðfaranótt sunnudags hringdi sjálfur í Neyðarlínuna og tilkynnti að ferðafélagar hans hefðu numið hann brott og hygðust vinna honum mein.

Maðurinn gat ekki gefið upp hvar hann var staddur og eftir að símtalinu lauk svaraði hann ekki í síma eftir það. Greining á samskiptum við fjarskiptakerfi leiddi til þess að farið var að svipast um eftir manninum í Þjórsárdal og nokkru síðar fundust ferðafélagar mannsins á bensínlausum bíl.

Í dagbók lögreglunnar segir að ástand þeirra hafi verið “misgott” og þeir höfðu aðra sögu að segja en félaginn.

Allar björgunarsveitir í Árnessýslu og Rangárvallasýslu, ásamt sveitum úr Reykjavík og þyrlu Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út til leitar að manninum en kalsaveður var um nóttina.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær fann áhöfn þyrlunnar manninn heilan á húfi á áttunda tímanum á sunnudagsmorgun. Hann var “fáklæddur en nokkuð hress” að sögn lögreglu.

Mennirnir voru allir fluttir á lögreglustöðina á Selfossi en fóru frjálsir ferða sinna eftir því sem leið á daginn og sá síðasti um kvöldmatarleitið. Var þá komin nokkuð góð mynd á málið sem að lögum verður ekki fellt undir refsimál og verður rannsókn þess hætt, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.