Tilkynning um eldinn barst ekki til lögreglu

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Við rannsókn á bruna í húsbíl í landi Torfastaða í Grafningi sem fannst brunninn á laugardag hefur komið fram að um kl. 23:30 á föstudagskvöld hafi Neyðarlínan fengið tilkynningu um eld sem gæti mögulega verið í bíl eða húsi og tiltekið í tilkynningunni að eldurinn væri í landi Torfastaða.

Þeim sem tilkynnti um eldinn var gefið samband frá Neyðarlínu til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu en þar virðist, að hans sögn, hafa hringt út.

Rannsókn á laugardag leiddi í ljós að í bílnum voru líkamsleifar sem taldar eru af manni á fertugsaldri.

Óskað eftir upplýsingum um umferð við brunavettvanginn
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að fleiri hafi haft samband við lögreglu með upplýsingar um málið. Í ljósi þeirrar tímasetningar á brunanum sem nú liggur fyrir óskar lögreglan sérstaklega eftir að heyra frá þeim sem voru á ferðinni í Grafningi og þar í grennd á tímabilinu frá því um kl. 22:00 og fram að miðnætti á föstudagskvöld.

Sá sem tilkynnti Neyðarlínunni um eldinn talaði sérstaklega um mögulega umferð ökutækis við brunavettvanginn þegar eldurinn var hvað mestur og óskar lögreglan eftir því að fá upplýsingar frá þeim sem þar hefur mögulega verið á ferðinni.

Upplýsingum má koma til lögreglu í síma 444-2000, á facebook eða í tölvupósti á netfangið sudurland@logreglan.is.

Fyrri greinSlösuðum fálka komið til bjargar
Næsta greinSunnlendingar heiðraðir á frjálsíþróttaþingi