Tilgangurinn er að hjálpa til í samfélaginu

Nýverið var stofnaður hópur á Facebook sem ber yfirskriftina Matargjafir á Selfossi og nágrenni. Stofnandi hans er Elísa Björk Jónsdóttir á Selfossi.

Sambærilegir hópar hafa verið stofnaðir víða um land, meðal annars á Akureyri og á Reykjanesi. Á síðunni getur fólk sett inn myndir af mat sem þeir vilja gefa fólki sem lítið hefur á milli handanna.

„Ég hef sjálf verið í þeim sporum að þurfa á hjálp að halda en það var kona úr Reykjavík, sem veit hver hún er, sem sendi poka fullan höldupoka af mat heim til mín þegar neyðin var stærst. Og það er eiginlega ekki hægt að lýsa þakklætinu,“ segir Elísa. Viðtökurnar við hópnum hafa verið ágætar en Elísa segir að þörfin sé til staðar. „Fámennið á þessu svæði, þar sem maður þekkir mann, gerir það að verkum að fólk leitar sér ekki hjálpar ef það er í vandræðum.“

Búa við alls kyns aðstæður
Þá segir Elísa tilgang hópsins vera að hjálpa til í samfélaginu vegna þess að það er staðreynd að á Íslandi er fólk sem býr við fátækt. „Ég veit að þær gjafir sem hafa verið gefnar nú þegar hafa verið vel þegnar.“

En hvaða hópur er að hafa samband við Elísu í gegnum síðuna? „Það er fólk sem býr við alls konar aðstæður. Það er fólk í láglauna störfum, einstæðir foreldrar, öryrkjar, ungar einstæðar mæður og fólk sem er í mikilli neyð. Það er staðreynd að sumir hafa það einfaldlega betra en aðrir og einhverjir hafa það mikið betra en aðrir.“

Erfitt að viðurkenna vandann fyrir sjálfum sér
Að sögn Elísu er erfitt fyrir fólk að viðurkenna fyrir öðrum að það þurfi á fjárhagsaðstoð að halda, kannski vegna þess hve erfitt getur verið að viðurkenna það fyrir sjálfum sér. „Þegar viðkomandi hefur viðkennt að hann þurfi kannski smá aðstoð og mætir á fund hjá þar til gerðum hjálparsamtökum, er hann beðinn um allskonar pappíra um tekjur og útgjöld til að sýna fram á að hjálparþörfin sé til staðar. Og fær svo jafnvel neitun í kjölfarið.“

Þeir sem vilja gefa mat í hópnum Matargjafir á Selfossi og nágrenni geta skráð sig í hópinn á Facebook og deilt þar myndum af þeim matvælum sem þeir hyggjast gefa. Þeir sem þurfa á að- stoð að halda þurfa ekki að greina frá því á vegg hópsins heldur geta þeir haft samband beint við Elísu Björk í gegnum einkaskilaboð á síðunni.

Fyrri grein„Mílan er komið til að vera“
Næsta greinHeilsustígurinn í Þorlákshöfn tilbúinn