„Tilgangurinn að koma völdum í hendur fárra aðila“

Hlöðufell, Langjökull og Eiríksjökull fjær. Ljósmynd © Mats Wibe Lund

Fyrir síðasta fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar lá beiðni frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um umsögn sveitarfélagsins um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir fjölmargar og nokkrar harðorðar athugsemdir við frumvarpið og var frumvarpinu vísað aftur til föðurhúsanna eftir umfjöllun á fundinum.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur á fyrri stigum lýst andstöðu sinn við fyrirhugaðan hálendisþjóðgarð og fellst ekki á það að 64,5% af því landsvæði sem fellur innan sveitarfélagamarka Bláskógabyggðar verði gert að þjóðgarði með því stjórnfyrirkomulagi sem boðað er í fram komnu frumvarpi.

Ekki hugsað um hag komandi kynslóða
Í niðurlagi bókunar sveitarstjórnar segir að eitt af helstu rökum ráðherra fyrir nauðsyn þess að stofna Hálendisþjóðgarð sé að varðveita þurfi hálendið fyrir komandi kynslóðir.

„Verði frumvarpið að lögum eru núverandi stjórnvöld búin að taka sér það vald að binda hendur komandi kynslóða um það hvernig þær kjósa að nýta stóran hluta landsins. Það er ekkert við núverandi stjórnfyrirkomulag eða framtíðarsýn ríkis og sveitarfélaga er varðar hálendið sem gefur tilefni til að ætla að á næstu árum verði gengið svo nærri hálendinu að komandi kynslóðir geti ekki notið þess,“ segir í bókun sveitarstjórnar sem telur langt í frá að verið sé að hugsa um hag komandi kynslóða þegar teknar eru svo stórar og óafturkræfar ákvarðanir um það hvernig komandi kynslóðum ber að nýta landið.

„
Það er ljóst hverjum þeim sem les frumvarpið að megin tilgangur þess er að koma völdum og ákvörðunartöku á stórum hluta landsins í hendur fárra aðila. 
Frumvarp líkt því sem hér er lagt fram er ekki til þess fallið að sátt verði um stofnun Hálendisþjóðgarðs, sem ætti að vera stolt þjóðarinnar. 
Því leggst sveitarstjórn Bláskógabyggðar gegn framlögðu frumvarpi,“ segir ennfremur í bókuninni.

Hægt er að lesa umfjöllun sveitarstjórnar í fundargerð á heimasíðu Bláskógabyggðar.

Fyrri greinViljayfirlýsing um framkvæmd 18 holu golfvallar við Selfoss
Næsta greinSöfnuðu milljón krónum fyrir Píeta samtökin