„Tilfinningin var óraunveruleg“

Eyrún Eva á verðlaunapalli í Finnlandi.

Eyrún Eva Guðjónsdóttir frá Selfossi gerði sér lítið fyrir í byrjun desember og lenti í þriðja sæti á Norðurlandamóti ungra hundasýnenda í Helsinki.

Eyrún Eva er ekki nema bara fjórtán ára en þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið að sýna hunda í fjögur ár.

„Landslið ungra sýnenda 13-17 ára var kynnt í október á þessu ári, þetta var í fyrsta skipti sem ég náði þeim árangri að landa landsliðssæti. En þetta er annað árið mitt í þessum flokki. Landsliðið skipa fjórir stigahæstu sýnendur ársins. Í flokknum fyrir neðan, Ungir sýnendur 9-12 ára, varð ég tvisvar sinnum stigahæsti sýnandi ársins,“ segir Eyrún Eva í samtali við sunnlenska.is

Mikil áskorun
Ólíkt hundasýningum hérlendis þá sýnir maður ekki sinn eigin hund, eða hund sem maður þekkir, á hundasýningum erlendis heldur fá sýnendur úthlutað ókunnugan hund rétt fyrir sýninguna.

„Við veljum okkur þrjár tegundir, sem við þjálfum svo hér heima og öflum okkur upplýsinga um. Kvöldið fyrir sýningu er okkur tilkynnt hvaða tegund við fáum að sýna. Við fáum hundana í hendurnar 30 mínútum fyrir sýningu. Það getur verið mikil áskorun og krefjandi að kynnast karakter hundsins og fá hann til þess að treysta sér á svona skömmum tíma.“

„Það sem er svo lærdómsríkt í þessu er að hversu vel sem þú þjálfar þig og undirbýrð, þá verð bæði ég og hundurinn að eiga okkar besta dag svo að allt gangi upp. Þetta getur krafist mikillar einbeitingar og þolinmæði. Í þetta skipti fékk ég tík sem hafði ekki náð tveggja ára aldri, hún var feimin og því var áskorunin töluverð.“

Fjölskylduhundurinn upphafið
Eyrún Eva byrjaði haustið 2018 að sýna hunda, eða eftir að þau fjölskyldan eignuðustu hund. „Ég hef ekki haldið utan um hvað ég hef sýnt marga hunda en það eru orðnir einhverjir tugir. Við fjölskyldan keyptum okkur hund hjá ræktanda sem hvatti mig vel áfram í að verða ungur sýnandi. Fyrsti hundurinn sem ég sýndi í Ungum sýnendum heitir Una og er Cavalier King Charles Spaniel.“

Aðspurð segir Eyrún Eva eiga sér margar uppáhalds hundategundir til að sýna. „En sú tegund sem stendur upp úr er Soft Coated Wheaten Terrier því að það geta verið svo ótrúlega skemmtilegir karakterar í tegundinni og því ég hef náð svo góðum árangri með hana upp á síðkastið. En Cavalier á sérstakan stað í hjarta mínu þar sem það er tegundin sem kveikti áhugann og leiddi mig inní þessa íþrótt.“

Heppin með fólkið í kringum mig
En hvernig tilfinning var það að komast á pall á svona stóru móti? „Tilfinningin var óraunveruleg og það var fyrst þegar ég kom heim til Íslands að ég meðtók árangurinn. En að sjálfsögðu var þetta eitthvað sem ég hafði sett mér markmið um. Það er mjög mikilvægt í þessu eins mörgu öðru að vera með rétt hugarfar og trúa á sjálfan sig. Ég á mér stóra drauma í þessum hundaheimi og eru næstu markmið þegar komin á blað.“

„Ungir sýnendur ganga ekki út á það hver er með flottasta hundinn heldur hver er besti sýnandinn og er það metið á tækni, framkomu, sambands á milli hunds og sýnanda og hvað þú nærð að laða fram í hundinum hverju sinni, svo að hann njóti sín sem allra best.“

„Ég landaði þriðja sæti í einstaklingskeppninni en einnig varð landsliðið í þriðja sæti í liðakeppninni. Ég hefði aldrei náð þessum árangri ein, ég hef verið svo heppin með fólkið í kring um mig,“ segir Eyrún Eva að lokum.

Eyrún Eva með móður sinni, Sæunni Elsu Sigurðardóttur.
Fyrri greinHjörvar Steinn Íslandsmeistari í atskák
Næsta greinJólastemning um allt land hjá FKA