„Til mikils að vinna ef hægt er að gera verðmæti úr hráefnum sem annars er sóað“

Hrafnhildur Árnadóttir, formaður Félags fjallahjólara í Ölfusi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrirtækið Fersk þurrkun í Þorlákshöfn fékk nýverið milljón króna styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands til að þróa íslenskt hágæða hvítlaukssalt unnið úr vannýttu hráefni, í samstarfi við Hörð Bender, sem er fyrsti hvítlauksbóndinn á Íslandi.

Fersk þurrkun sérhæfir sig í að frostþurrka hráefni og eina fyrirtækið á landinu sem sinnir slíkri vinnslu.

„Hugmyndin að fyrirtækinu kom til í kjölfar þess að við höfðum sjálf leitað að þjónustuaðila til að sjá um að frostþurrka fyrir okkur hráefni og komumst að því að eina leiðin til að fá hráefni frostþurrkað væri að senda það erlendis eða kaupa okkar eigin þurrkara,“ segir Hrafnhildur Árnadóttir, framkvæmdastjóri Fersk þurrkun, í samtali við sunnlenska.is. Hún stofnaði fyrirtækið ásamt manni sínum Sigurði Steinari Ásgeirssyni.

Byrjuðu að gera tilraunir í bílskúrnum
Hrafnhildur segir að í dag séu um 30 tonn af íslenskum hráefnum send erlendis til frostþurrkunar á hverju ári vegna þess að engin miðlæg þjónusta sé til staðar fyrir fyrirtæki á Íslandi. „Frostþurrkarar eru mjög dýr tæki og ekki endilega á færi frumkvöðla eða smærri fyrirtækja að kaupa sinn eigin þurrkara. Fjárfesting í frostþurrkara borgar sig alla jafna ekki nema um sé að ræða mjög stóra framleiðsluafurða. Við fórum því að velta fyrir okkur hvort að það væri farvegur fyrir stofnun miðlægrar þjónustu á Íslandi sem gæti séð um stór og smá verkefni.“

Fersk þurrkun var stofnað fyrir um það bil ári síðan. „Við ákváðum að flytja inn tilraunafrostþurrkara og hefja tilraunir með frostþurrkun ýmiskonar hráefna. Við byrjuðum að gera tilraunir í bílskúrnum okkar heima í Þorlákshöfn og fórum svo fljótlega að fá fyrirspurnir frá frumkvöðlum um hvort við gætum prófað að frostþurrka fyrir þá. Þegar við vorum farin að taka við tilraunaverkefnum fyrir önnur fyrirtæki ákváðum við að flytja okkur yfir í húsnæði Eldstæðisins í Kópavogi og þar munum við vera þar til við höfum komið upp varanlegri aðstöðu í Þorlákshöfn.“

Atvinnuhúsnæði í Þorlákshöfn á döfinni
Hrafnhildur segir að þau hafi ákveðið til að byrja með að leggja áherslu á tilraunir með frostþurrkun grænmetis og sjávargróðurs, frekar en annarra hráefna. „Það er ennþá mjög margt ókannað hvað varðar nýtingu hliðarafurða í grænmetisframleiðslu og til mikils að vinna ef hægt er að gera verðmæti úr hráefnum sem annars er sóað. Við fengum styrki úr nýsköpunarsjóðum til þessara tilraunaverkefna og í kjölfarið ákváðum við að láta slag standa og panta stóran frostþurrkara sem er væntanlegur til landsins í sumar. Við stefnum á að koma upp aðstöðu í atvinnuhúsnæði í Þorlákshöfn og vonumst til að geta fljótlega tekið að okkur stærri verkefni ásamt því að halda áfram tilraunaverkefnum fyrir frumkvöðla, framleiðendur og okkur sjálf.“

„Ég sinni þessum verkefnum að mestu leyti sjálf en hef þó fengið verktaka til að sinna ýmiskonar skammtímaverkefnum tengdum starfseminni. Í sumar verður ráðinn einn sumarstarfsmaður til aðstoðar og ég vona að hægt verði að ráða fastan starfsmann um leið og við höfum komið upp varanlegri aðstöðu í Þorlákshöfn,“ segir Hrafnhildur.

Lítt þekkt aðferð hérlendis
Fersk þurrkun er nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki sem hefur það að markmiði að gera frostþurrkun aðgengilega fyrir frumkvöðla og framleiðendur matvæla á Íslandi. „Frostþurrkun er mild þurrkunaraðferð sem hefur verið notuð í matvælaframleiðslu erlendis í tugi ára en hún hefur ekki náð mikilli útbreiðslu á Íslandi enn sem komið er.“

„Á Íslandi hefur að mestu leyti verið notast við loftþurrkun og hefur sérstaklega verið lögð áhersla á þurrkun fisks og sjávarafurða. Frostþurrkun er aðferð sem hentar til að þurrka nánast hvaða hráefni sem er, svo sem grænmeti, ávexti, fisk, kjöt, mjólkurvörur, þörunga og fleira. Frostþurrkun viðheldur mun meira magni af lífvirkum efnum, næringarefnum, lit, bragði og lykt hráefna heldur en loftþurrkun og hægt er að lengja geymsluþol afurða í allt að 30 ár með frostþurrkun. Erlendis er frostþurrkun mest notuð við framleiðslu á skyndikaffi og við framleiðslu á tilbúnum skyndiréttum fyrir útivistarfólk.“

„Frostþurrkun fer fram í stýrðum aðstæðum, hráefni er komið fyrir í klefa þar sem það er fryst. Að lokinni frystingu knýja lofttæmidælur fram lofttæmi í klefanum á sama tíma og hitinn er hækkaður smátt og smátt. Með notkun lofttæmis er unnt að umbreyta ísnum í hráefninu beint yfir í gufu án þess að hann umbreytist fyrst í vatn. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að vatnið skemmi hráefnið á meðan á þurrkun stendur. Frostþurrkað hráefni má svo ýmist endurvatna með því að hella yfir það heitu vatni, neyta án meðhöndlunar, dufta það eða kurla,“ segir Hrafnhildur.

Betri nýting hráefna
Að sögn Hrafnhildar mun styrkurinn frá Uppbyggingarsjóði gerir þeim kleift að halda áfram að gera tilraunir og þróa afurðir úr íslenskum hráefnum. „Á Íslandi fer mjög lítið fyrir afurðum sem unnar eru úr íslensku grænmeti og mjög lítið hlutfall af íslensku grænmeti er selt öðruvísi en ferskt. Þetta skýrist meðal annars af því að það er mjög dýrt að fullvinna afurðir á Íslandi vegna hás launa- og framleiðslukostnaðar.“

„Við grænmetisframleiðslu fellur gjarnan til töluvert af hráefni sem ekki tekst að selja ferskt, auk þess sem framleiðslu grænmetis fylgir oft mikið magn hliðarafurða sem ekki er venja að neyta á Íslandi, svo sem næringarrík laufblöð eða afskurður. Skýran farveg fyrir slíkt hráefni skortir og grænmetisbændum tekst ekki alltaf að finna not fyrir þessi hráefni. Því endar oft með að mikið af hráefni fer til spillis eða er urðað. Við teljum að með frostþurrkun megi skapa farveg fyrir hliðarafurðir og grænmeti sem ekki er hægt að selja ferskt og framleiða úr því verðmætar afurðir. Þær tilraunir sem við stundum þessa dagana snúast um að þróa slíkar afurðir og finna þeim farveg á markaði, til dæmis í matargerð, matvælaframleiðslu, snyrtivöruframleiðslu eða fæðubótarefnaframleiðslu.“

Helsta markmið hjá Fersk þurrkun þessa stundina er að koma upp aðstöðu í Þorlákshöfn. „Í kjölfarið er svo markmiðið að skala upp afkastagetu fyrirtækisins í samræmi við þá eftirspurn sem skapast með tilkomu þjónustunnar. Markmiðið er að geta þjónustað bæði smá og stór fyrirtæki ýmist með tilraunir eða framleiðslu afurða,“ segir Hrafnhildur að lokum.

Fyrri greinÁrborg er sveitarfélag sem laðar að fólk
Næsta greinHvers virði er velferð barna?