Til greina kemur að veita afslátt á gjöldum

Bæjarráð Árborgar fundaði með Ögmundi Jónassyni innanríkis­ráðherra í síðustu viku um byggingu nýs fangelsis.

Að sögn Elfu Daggar Þórðardóttur bæjarráðs­manns var það niðurstaða fundarins að bæjarráðið óskaði eftir gögnum frá ráðuneytinu um framkvæmdina eins og hún er áætluð núna.
Að sögn Elfu Daggar hefur bæjarráð mikinn áhuga á því að fá að koma sínum hugmyndum að varðandi hugsanlega stækkun fangelsins á Litla Hrauni þegar upplýsingar liggja fyrir. Er þess vænst að bæjarráð verði komið með gögnin í hendurnar í næstu viku.

,,Það er ekkert leyndarmál að við teljum þetta mál mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu og ég tel að við eigum að gera okkar ýtrasta til þess að fá fangelsið á Litla Hraun,“ sagði Elva Dögg. Það kom fram hjá henni að vel gæti komið til greina að veita afslátt frá fasteigna- og gatnagerðargjöldum vegna fram­kvæmdarinar en hún sagði að bæjarráðsmenn hefðu orðið var við að Hólmsheiði væri fyrsti kostur hjá ráðherra. Þau teldu hins vegar ekki of seint að reyna að hafa áhrif á ákvörðunina. Elva taldi að það væri mikilvægt að báðir kostirnir, Hólms­heiði og Litla Hraun, væru í boði þegar farið væri í útboð sem er fyrirhugað á næstunni.

,,Það er augljóst að það er verulegur ávinningur af samrekstri, hvort sem litið er til yfirbyggingar, lóðar eða lagna. Það er því ekki augljóst að byggja fangelsið á nýjum stað. Þá teljum við að samgöngu­málin verði að hugsa upp á nýtt enda ljóst að Suðurstrandar­vegur kemur til með að breyta verulega samgöngum við Reykjanes sem skiptir einnig máli.

Fyrri greinJóhanna Hjartar: Opnunarhátíð safnahelgar í Hveragerði
Næsta greinLogi tekur við Selfoss