Þúsund stjörnur í Sigtúnsgarði

Það var magnað að sjá Sigtúnsgarðinn lýsast upp í símaljósum á meðan Magnús Kjartan söng Vegbúann. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarhátíðin Sumar á Selfossi náði hápunkti sínum í kvöld þegar þúsundir komu saman í sléttusöng í Sigtúnsgarði í miðbæ Selfoss.

Magnús Kjartan Eyjólfsson hefur stjórnað sléttusöngnum á Selfossi um árabil og hann sló ekki feilnótu í kvöld frekar en fyrri daginn.

Íbúar bæjarins hafa verið duglegir að skreyta hús sín í tilefni af bæjarhátíðinni og göturnar hafa tekið sig saman og staðið fyrir ýmsum uppákomum. Víða voru götugrill á Selfossi í kvöld og gleðin við völd. Fáir skemmtu sér þó jafn vel og íbúar Tröllhóla en gatan var valin skemmtilegasta gata bæjarins í ár.

Tröllhólarnir trylltust þegar úrslitin í skemmtilegustu götunni voru tilkynnt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Magnús Kjartan stýrði sléttusöngnum og var frammistaða hans til háborinnar fyrirmyndar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSelfyssingar komu tómhentir úr Laugardalnum
Næsta greinBrúarhlaup og hjólreiðar í frábæru veðri