Þúsund rúmmetra krapahlaup úr Ingólfsfjalli

Ingólfsfjall. Ljósmynd/Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands

Fulltrúar Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands fóru á þriðjudag og mældu upp lítið snjóflóð sem hafði fallið í Ingólfsfjalli þann 5. eða 6. apríl.

Flóðið var blautt og flokkast undir krapahlaup, það hefur fallið eftir miklar rigningar í kjölfarið á tæplega sólarhrings NA-skafrenning og ofankomu. Brotstál flóðsins er um 55 m að breidd og ca 1-2 m á þykkt. Hlauplengdin er um 200-300 m og rúmmál þess um þúsund m3.

„Fá snjóflóð í Ingólfsfjalli eru skráð og líklegast hefur ekki verið mikill áhugi á þeim, enda enginn hætta af þeim sem steðjar að byggðu bóli. Með auknum útivistaráhuga Íslendinga er þó rétt að benda á að snjóflóð eru tíð í fjallinu. Tvö snjóflóð hafa fallið með stuttu millibili á tveimur stöðum í fjallinu það sem af er ári. Þá er vert að minnast þess að mannskæð flóð hafa orðið í fjallinu þar sem tvö ungmenni fórust á níunda áratug síðustu aldar í hörmulegu slysi,“ segir á Facebooksíðu ENSu, þar sem greint er frá flóðinu og mælingunum.

Fyrri greinHraðakstursbrot sjaldan færri
Næsta greinHringtorg og undirgöng við Suðurhóla boðin út