Þurrgallinn reyndist Friðrik vel

Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, tók að sér að gæðaprófa gjöfina áður en hún var afhent. Ljósmynd/Aðsend

Árið 2015 hættu starfsmenn Hótel Rangár að taka við þjórfé en gestum var þess í stað boðið að láta af hendi peninga sem myndu renna til björgunarsveitanna á svæðinu.

Síðan þá hefur Hótel Rangá reglulega styrkt Flugbjörgunarsveitina á Hellu og Björgunarsveitina Dagrenningu á Hvolsvelli.

Í sam­ráði við björg­un­ar­sveit­irn­ar var ákveðið að í ár myndi styrk­ur­inn koma til kaupa á þurrgöllum sem munu koma að góðum notum við björgunarstörf í vatni.

Gallarnir voru afhentir síðastliðinn föstudag, en Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, vildi þó alls ekki afhenda þá án þess að ganga úr skugga um að þeir væru fyllilega vatnsheldir. Hann tók því að sér að prófa galla í Eystri-Rangá og stóðust bæði Friðrik og gallinn það próf með glans.

Fulltrúar Hótel Rangár og björgunarsveitanna við afhendingu gallanna á bakka Eystri-Rangár síðastliðinn föstudag. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri grein5,4 milljónir króna til sunnlenskra verkefna
Næsta greinMesta hlutfallslega fjölgunin í Mýrdalshreppi