„Þurfum að tala meira um dauðann“

Ljóðabók Sigríðar Karlsdóttur. Ljósmynd/Aðsend.

Selfyssingurinn Sigríður Karlsdóttir er þessa dagana að safna fyrir útgáfu á ljóðabók til styrktar vinkonu sinnar sem berst við ólæknandi krabbamein.

Bókin ber heitið Á dauða mínum átti ég von og fer allur ágóði af bókinni til styrktar Ölmu Geirdal og fjölskyldu hennar. Söfnunin fyrir útgáfu bókarinnar fer fram á Karolina Fund.

„Ég hef ætlað að gefa út bók frá því ég var unglingur. Vissi það bara alltaf að þegar ég yrði gömul ætlaði ég að skrifa bækur. Ætli unglingnum í mér finnist ég ekki vera orðin nógu gömul. En það var nú þannig að ég rakst á öll skúffuljóðin mín í sumar þegar ég var að flytja. Þá kom í ljós að ég átti bara efni í mjög góða ljóðabók,“ segir Sigríður í samtali við sunnlenska.is.

Sigríður hefur áður gefið út ljóðabók, þá um tvítugt. Krókudílatár hét sú bók og var hún að sögn Sigríðar ádeila á eigingirni mannkyns umvafin húmorískri gremju.

Uppgjör við óttann við dauðann
Ljóðin í Á dauða mínum átti ég von spanna tuttugu og sex ár aftur í tímann. „Ég valdi eitt ljóð á ári, frá tíu ára aldri. Ég þurfti að grafa djúpt til að átta mig á tilfinningunni ár hvert og valdi það ljóð sem endurspeglaði líðan mína og þroska á þeim tíma. Þetta var massa sjálfsvinna og þurfti virkilega að vinna mig í gegnum þetta,“ segir Sigríður.

„Ljóðabókin er fyrst og fremst uppgjör mitt við mig sjálfa. Uppgjör við þann hluta sem trúir ekki á mig. Uppgjör við óttann við dauðann, sem hefur fylgt mér alla tíð. Þessi ljóð eru afar persónuleg og þurfti ég að gera vel og lengi upp við mig, hvort ég ætlaði að taka þau upp úr skúffunni og birta þau. Því ég opinbera mig og mínar hugsanir algjörlega þarna. Ég á ennþá erfitt með tilhugsunina um að ég muni birta þessi einlægu ljóð sem sýna skugga mína og fegurð,“ segir Sigríður sem hefur verið að semja ljóð síðan hún var níu ára.

Mikið til af góðu fólki
Að sögn Sigríðar gengur söfnunin á Karolina Fund frábærlega. „Við vorum bara að starta þessu en nú þegar tikka styrkirnir inn hratt og örugglega. Ég fyllist svo mikilli hlýju og þakklæti þegar ég sé öll nöfnin sem eru að styrkja okkur. Ég verð alveg klökk að sjá hvað það er mikið til af góðu óeigingjörnu fólki þarna úti og það er svo gott að finna svona „sameiginlega góðmennsku“. Það eru bara einhverjir töfrar í því!“ segir Sigríður.

Sem fyrr segir fer allur ágóði af ljóðabókinni til styrktar Ölmu, vinkonu Sigríðar. „Alma er baráttuljón. Þriggja barna móðir sem hefur aldeilis fengið verkefni í lífinu. Hún hefur lengi glímt við allskonar fíknitengda sjúkdóma og hefur alls ekki siglt lygnan sjó. Alltaf stendur hún uppi sem sigurvegari. Hún Alma er einstök. Hún er með ólæknandi krabbamein og læknar hafa þegar gefið henni tíma sem hún á eftir ólifað. Hún talar hispurslaust um tilfinningar sínar gagnvart veikindunum og gefur okkur hinum svo mikið ljós og jákvæðni með skrifum sínum. Það fylgja henni mörg þúsund manns og hún snertir hjörtu margra daglega. Hún er mér mikill innblástur og er ég þakklát fyrir að fá að vera samferða henni í lífinu,“ segir Sigríður.

Þurfum að gera dauðann minna tabú
Sigríður segir að henni finnst dauðinn ótrúlega áhugavert viðfangsefni. „Við deyjum öll – samt lifum við og hrærumst í óttanum við dauðann. Að heyra í sjúkrabíl og hugsa hvar okkar nánustu eru, er ótti við dauðann. Daglega leiðum við hugann á einn eða annan hátt að óttanum við dauðann. Samt tölum við aldrei um hann. Sum okkar eyða meirihluta ævinnar í að óttast dauðann án þess að tjá þessar tilfinningar,“ segir Sigríður.

„Það sem við Alma eigum sameiginlegt er að við viljum tala um hlutina eins og þeir eru og nú erum við að taka dauðann og gera hann að minna tabú. Mig langar bara að við förum að tala meira um dauðann. Ætli það sé ekki þemað í þessu öllu saman,“ segir Sigríður.

Dýrt að veikjast á Íslandi
„Ég hvet alla til að leggja eitthvað af mörkum. Það er dýrt að veikjast á Íslandi og ef ég get hjálpað Ölmu að lifa því lífi sem hún þráir að lifa þennan tíma sem hún á eftir, þá geri ég það. Hver hundraðkall skiptir máli og ég vil minna á að margt smátt gerir eitt stórt og þakka öllum sem hafa lagt sitt af mörkum. Mér þykir óendanlega vænt um það!“ segir Sigríður að lokum.

Söfnunin á Karolina Fund.

Fyrri greinMisjöfn uppskera sunnlensku liðanna
Næsta greinGul viðvörun: Miklar leysingar og vatnavextir