„Þurfum að leita leiða til að Landeyingar komist leiðar sinnar“

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Sigurður Gísli Guðjónsson

Eins og sunnlenska.is greindi frá í morgun er Þjóðvegur 1 lokaður milli Hvolsvallar og Víkur vegna veðurs.

Björgunarsveit mannar lokunarpóst við Hvolsvöll og urðu margir Landeyingar hissa í morgun þegar Suðurlandsvegi var lokað, enda ágætis veður í Landeyjunum og vegir auðir. Sunnlenska.is greindi meðal annars frá því að skólaakstur hafi fallið niður í Landeyjunum vegna lokunarinnar.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði í samtali við sunnlenska.is að almennt séð sé betra að hafa lokunarpóst við þéttbýli.

„Það þarf að skoða þetta í hvert sinn og við þurfum líka að leita leiða til að Landeyingar komist leiðar sinnar við þessar aðstæður, komi til þess að loka þurfi við Hvolsvöll þótt aðstæður séu ekki slæmar í Landeyjum,“ sagði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

„Lokunarstaður við Markarfljót er hentugur við staðbundnar lokunaraðstæður, en Hvolsvöllur við víðtækari en gjarnan er haft samráð við lögreglu um staðsetningu lokunarpósts. Í þessu tilviki var mikill vindur við Markarfljót eða a.m.k. 30 m/s og því ekki hentugt að loka þar, auk þess sem búast mátti við sandfoki þar. Því er talið hentugra t.d. fyrir ferðamenn að bíða á Hvolsvelli en við Markarfljót,“ bætti Pétur við.

Fyrri grein„Sörur hinnar uppteknu húsmóður“ eru ómissandi á jólunum
Næsta greinNý bók frá Þórði – Bókagleði á sunnudaginn