Þurfti aðstoð eftir nótt í snjóhúsi

Frá útkallinu í morgun. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ingunn

Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni og Hjálparsveitin Tintron í Grímsnesi fengu útkall klukkan 5:22 í morgun þar sem ferðalangur óskaði eftir aðstoð á Lyngdalsheiði.

Þar var um að ræða konu sem hafði dvalið í snjóhúsi á heiðinni í nótt og hafði hún gengið frá snjóhúsinu í blindbyl í um það bil tvær klukkustundir. Konan hafði ætlað að komast í bílinn sinn sem var lagt skammt frá fjallaskálanum við Kringlumýri en farið af leið og fann björgunarsveitarfólkið hana nokkuð vestar á heiðinni.

Í Facebookfærslu Ingunnar segir að aðgerðir hafi gengið vel á staðnum og konan var fljótlega komin inn í hlýjan bíl.

Fyrri greinBjörgunarsveitir kallaðar út – Heiðin og Þrengslin lokuð
Næsta greinLögreglan rannsakar ofbeldismyndbönd barna á Selfossi