„Þú verður ekki betri en þarmaflóran þín“

Birna G. Ásbjörnsdóttir á heimili sínu á Eyrarbakka. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Fyrir skömmu kom fyrsta vara fyrirtækisins Jörth á markaðinn en fyrirtækið vinnur afurðina úr íslenskri broddmjólk. Þetta er í fyrsta sinn sem vara sem unnin er úr broddmjólk kemur á almennan neytendamarkað á Íslandi. Þessi fyrsta vara frá Jörth nefnist Abdom 1.0 og inniheldur góðgerla sem hjálpa fólki að efla og stuðla að heilbrigðri þarmaflóru.

Á bak við Jörth standa hjónin Birna G. Ásbjörnsdóttir, sem nú er að ljúka doktorsnámi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands og Guðmundur Ármann, umhverfis- og rekstrarfræðingur.

Birna tók hlýlega á móti blaðamanni sunnlenska.is á fallegu heimili þeirra hjóna á Eyrarbakka á köldum en fallegum degi fyrr í vikunni. Á boðstólum var himneskt jurtate og lífræn bláber og augljóst að góð heilsa er í hávegum höfð á þessu heimili.

Fólkið á bakvið Jörth, Guðmundur Ármann og Birna G. Ásbjörnsdóttir. Ljósmynd/Jörth

Skáluðu í broddi á morgnanna
„Þetta byrjar þannig að við erum bæði áhugasöm um broddmjólk – ég síðan ég man ekki hvenær og Guðmundur í rauninni líka. Þegar við byrjum að hugsa þetta þá erum við reglulega að kaupa okkur ferska broddmjólk. Mamma mín er alin upp í sveit – hún er orðin níræð – og hún gaf mér alltaf ábrystur þegar ég var krakki og þetta var uppáhaldið mitt. Guðmundur er aftur á móti þannig að hann getur ekki borðað grjónagraut eða neitt svoleiðis með kanil, það er bara ekki hans, þannig að við vorum bara að skála í broddi á morgnana. Fengum okkur reglulega broddmjólk og drukkum hana bara hráa,“ segir Birna, aðspurð hvernig hugmyndinni að Abdom 1.0 kviknaði.

„Svo segir Guðmundur einhvern morguninn „Getum við ekki gert eitthvað með þetta? Getum við ekki búið til eitthvað úr þessu?“ Og ég „Jú, við getum það alveg. Við getum hylkjað þetta og tekið þetta inn. Og gert vöru úr þessu – búið til bætiefni“ og þannig fór boltinn bara að rúlla.“

Fannst vanta vöru sem hún gæti treyst 150%
Birna hefur í tæpa tvo áratugi helgað líf sitt rannsóknum og námi í heilbrigðisvísindum, bæði hérlendis og erlendis, með áherslu á þarmaflóruna og áhrif hennar á líkamlega og andlega heilsu. Hún hefur haldið ótal heilsufyrirlestra og veitt fólki ráðgjöf varðandi mataræði og hefur þannig hjálpað fjölmörgum við að ná betri heilsu.

„Ég var alltaf að ráðleggja fólki um einhver bætiefni en samt einhvern veginn aldrei búin að finna það sem mér fannst vera í alvörunni nógu gott. Þannig að það lúrði líka alltaf þessi löngun hjá mér, en ég hafði einhvern veginn aldrei tíma – að láta það verða að veruleika. Mig dreymdi alltaf um góða vöru sem ég treysti 150%.“

„Þannig að við ákváðum að leggja af stað í þetta ferðalag og það eru orðin mörg ár síðan. Það var árið 2016 eða 17 sem við byrjuðum að vinna í verkefninu. Það er í raun fáránlegt en þetta er full vinna í allan þennan tíma, líka vegna þess að við erum að taka afurð sem enginn annar hefur í raun unnið áður. Við erum að byrja framar en á byrjunarreit. Flækjustigið er búið að vera mikið, en það tókst.“

Abdom 1.0 kemur í einstaklega vönduðum og umhverfisvænum umbúðum. Hægt er að fá vöruna í áskrift og fær fólk þá áfyllinguna senda í pósti. Ljósmynd/Jörth

Frostþurrkun tryggir gæðin
Birna segir að ferlið hafi alltaf gengið vel en þau hafi lent á ótrúlega mörgum þröskuldum. „Við höfum alltaf leyst allar flækjur og það er bara svona praktík. Það var til dæmis ekki til frostþurrkari á Íslandi sem við gátum nýtt þegar við byrjuðum í þessu,“ segir Birna en árið 2021 hóf fyrirtækið Frostþurrkun ehf. starfsemi sína í Þorlákshöfn. Guðmundur fór að funda með þeim og þannig hafi boltinn farið að rúlla.

Með því að notast við frostþurrkun er hægt að tryggja að gæði broddmjólkurinnar haldi sérásamt þeim þáttum sem rannsóknir sýna að gagnast heilsu. Í hverjum skammti af Abdom 1.0 eru 50 milljarðar CFU, sem gerir það að einu öflugasta bætiefni sem völ er á. Auk þess tryggir míkróhjúpun gerlanna að sérhæfð virkni hvers og eins nýtist á staðbundinn hátt í meltingarveginum.

Fyrsta vara af mörgum
Sem fyrr segir er Abdom 1.0 fyrsta vara Jörth og eru fleiri vörur væntanlegar frá þeim á næstunni. „Ég er langt komin með næstu vöru, þannig að hún fer í framleiðslu fljótlega. Með fyrstu vöruna þurftum við að finna upp hjólið á mjög mörgum sviðum þannig að vinnuferlið fyrir næstu vöru verður miklu auðveldara. Þegar við þróuðum þessa vöru þá hugsaði ég þetta í miklu stærra samhengi, þannig að við erum að horfa á ákveðna þætti í líkamanum og ákveðnar lausnir þar,“ segir Birna. Þess má geta að þó að þau Guðmundur séu ein á bak við Jörth þá eru þau með fjölmarga með sér í þessu, eins til dæmis verktaka sem vinna ákveðna þætti við framleiðsluna.

Birna segir að hún sé mjög ströng á gæðakröfunum. „Það er svo mikið af gerlum og vörum ámarkaði – og nú er ég ekki að taka neinn út fyrir sviga – en það er alltof algengt að það séu fylliefni og aukaefni í vörunni, þannig að við erum ekki alltaf að fá það magn né þau gæði sem við höldum að við séum að fá. Og þess vegna er hægt að hafa verð á vörum miklu lægra ef helmingurinn er fylliefni,“ segir Birna en þess má geta að Abdom 1.0 inniheldur aðeins náttúruleg hráefni. Engar erfðabreytingar, soja, sýklalyf, fylliefni eða aukaefni.

„Það var alltaf stóra málið – að gera þetta vel, gera þetta rétt og byggja á rannsóknum og nýjustu vísindalegu þekkingu. Ég er með góðan aðgang að virtu vísindafólki og er með gott teymi á bak við verkefnið. Þegar kemur að því að taka stórar ákvarðanir þá erum við með vísindateymi sem við ræðum við.“

Birna og Nói, sonur hennar, heilsa upp á kýrnar. Ljósmynd/Aðsend

Verknám og rannsóknir á broddmjólk í Boston
Birna hefur aflað sér mikillar og breiðarar menntunar þegar kemur að heilsu og næringu. „Minn bakgrunnur er næringarlæknisfræði og heilbrigðisvísindi. Ég tók til dæmis út í Bretlandi það sem kallast Nutritional Medicine, tók meistaragráðu í því við í Surrey háskóla. Ég tók líka það sem heitir gagnreynd heilbrigðisvísindi, í Oxford háskóla. Og síðan er ég að ljúka doktorsnámi í heilbrigðisvísindum frá Háskóla Íslands. Þannig að ég er bara að setja allar mínar rannsóknirsaman í eina stóra doktorsritgerð þessa dagana.“

Birna gat nýtt sér broddmjólk sem rannsóknarefni í náminu. „Það er nefnilega svo skemmtilegt. Þetta gerist eiginlega allt óvart. Þegar við erum á fullu í okkar vöruþróun og öllu þessu, þá er ég ásamt öflugu teymi rannsakenda að undirbúa rannsókn á meltingarvegi og geðheilsu barna og unglinga á Íslandi, en rannsóknin varð á endanum doktorsverkefnið mitt.“

„Þegar við ætlum að fara að safna gögnum þá kemur COVID þannig að við höfðum í rauninni ekki aðgang að þessum hópi til að safna sýnum. Við gátum ekki tekið blóðprufur og okkur voru bara skorður settar, þannig að þá breyttist aðeins áherslan mín, svo að ég myndi ekki bara útskrifast árið 2030,“ segir Birna og hlær.

„Ég get ekki útskrifast án þess að vera með niðurstöður úr rannsókn. Þannig að þá nýtti ég í rauninni broddmjólkina og rannsóknirnar sem ég var hvort sem er með í bígerð. Verknámið mitt úti í Boston snerist um rannsóknir á broddmjólk og áhrifum hennar á þarmaflóru, gegndræpi þarma og svokallað gut-brain axis, hvernig broddmjólkin hefur áhrif á þarmaflóruna, hvort það hefði í raun einhver áhrif á taugaboðefni, hormón, hegðun, líðan og þess háttar.“

Verkefni Birnu fékk eðlilega mikla athygli frá samstarfsfólki hennar úti í Boston á Harvard háskólasjúkrahúsinu. „Þetta sló alveg í gegn – það voru allir farnir að tala um brodd,“ segir hún og hlær.

Birna á rannsóknarstofunni. Margra ára vinna liggur að baki vöruþróunarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Nota það sem annars væri fargað
Þess má geta að þó að Abdom 1.0 sé unnið úr broddmjólk þá ætti fólk með mjólkuróþol að þola vöruna. „Þeir sem eru með mjólkuróþol eru venjulega viðkvæmir fyrir laktósa. Broddmjólkin er mjög lág í laktósa. Broddmjólkin sem við söfnum er mjólkin sem erftir er þegar kálfurinn er búinn að fá sitt. Afgangsmjólk sem yfirleitt er fargað en þessi mjólk er í raun mjög lág í laktósa,“ útskýrir Birna.

„ Ég get ekki sagt að broddmjólkin okkar sé laktóslaus en hún er það nánast. Sýring broddmjólkurinnar brýtur niður laktósann að miklu leyti og síðan setjum við mjög mikið af góðgerlum í vöruna, en gerlarnir hjálpa okkur líka við að melta og brjóta niður laktósann sem eftir er. Ef eitthvað er þá get ég næstum því sagt að hún sé góð fyrir þá sem eru með laktósaóþol eða önnur óþol en fólk verður samt að prufa sig áfram. Ef um er að ræða mjólkurofnæmi þá er það allt annað mál og Abdom 1.0 hentar þá alls ekki.“

Góðgerlar geta hjálpað eftir COVID
Margir hafa upplifað meltingarvandamál eftir að hafa fengið COVID og segir Birna það skýrist af því að slímhúðin í meltingarveginum geti sýkst af vírusnum. „Þess vegna er talið að ákveðinn hópur sem veikist af COVID fari verr út úr því varðandi meltingarveginn. Við vitum að ákveðin einkenni út frá COVID eru frá meltingarvegi, til dæmis niðurgangur. Það er vitað að þeir sem hafa veikst af COVID geta tímabundið verið með aukið gegndræpi í þörmum og við vitum að aukið gegndræpi í þörmum á sér stað meðal annars þegar þarmaflóran riðlast. Þegar við fáum veirusýkingu riðlast mögulega þarmaflóran – rúmlega 70% af ónæmiskerfinu er í þörmunum – þannig að við græðum alltaf á því að byggja upp þarmaflóruna. Þannig eflum við náttúrulegar varnir líkamans.“

„Það er svona þráhyggja mín og ástríða í lífinu að kenna fólki að við getum svo sannarlega haft áhrif á heilsuna með því að byggja upp góða þarmaflóru. Í rauninni hefur þessi þarmaflóra áhrif á nánast allt – ónæmiskerfið, taugakerfið, hormónakerfið, efnaskiptin – hún spilar alls staðar eitthvað hlutverk. Þannig má segja að því heilbrigðari sem þarmaflóran er, því heilbrigðari er maður. Þarmaflóran gefur okkur fullt af efnum og góðir gerlar sem eru okkur í hag, sem vinna með okkur, þeir gefa okkur mikilvæg efni til að viðhalda góðri heilsu. Á meðan slæmu gerlanir gefa okkur bólgumyndandi og skaðleg efni sem geta haft slæm áhrif á heilsu. Þarmaflóran er efnaverksmiðjan þín. Allt sem fer ofan í þig fer í gegnum þarmaflóruna, hún hjálpar við niðurbrot, upptöku og framleiðslu á öllum mögulegum efnum. Þú verður ekki betri en þarmaflóran þín er. Ef hún er ekki í jafnvægi þá eru líkur á að ýmislegt annað sé ekki í jafnvægi.“

„Þannig að við eigum að horfa á þetta eins og garðinn okkar – við viljum halda illgresinu í lágmarki án þess að nota eiturefni og byggja upp góða gróðurinn, leyfa honum að blómstra. Þá gengur allt vel. Þá virka öll kerfi,“ segir Birna sem leggur áherslu á að gott mataræði skiptir alltaf mestu máli.

Glerið í krukkunni hleypir ákveðnum geislum í gegn og öðrum ekki. Þannig ver glerið vöruna en ekki nóg með það – þeir geislar sem komast í gegn auka líftíma vörunnar. Ljósmynd/Jörth

Marg-rannsakað bætiefni
Birna segir að Abdom 1.0 sé fyrir allan aldur – þeir sem yngri eru fá minni skammta en auðvelt er að opna hylkin og setja út í mat eða drykk. „Það er ekkert þarna sem einhver má ekki fá. Þó skal taka fram að þeir sem eru að taka ónæmisbæland lyf eða eru í krabbameinsmeðfer þurfaað ráðfæra sig við sinn lækni. Það er vegna þess að við erum að taka inn bakteríur, við erum að taka inn lifandi bakteríur og ef fólk er mjög veikburða þá getur það mögulega fengið sýkingu en það er mjög sjaldgæft,“ segir Birna.

„Það sem mér finnst áhugavert er að það er engin krafa gerð um rannsóknir á hráefni né vöru þegar bætiefni eru sett á markað. Við leggjum hins vegar mjög mikla áherslu á báða þessa þætti.

Birna segir að fjölmargir hafi nú þegar prófað Abdom 1.0 og eru því nú þegar komnar margar reynslusögur. „Það er líka skemmtilegt að segja frá því að við erum með klíníska rannsókn í gangi á vegum Háskóla Íslands og sú rannsókn snýr að því að rannsaka áhrif gerjaðramatvæla á þarmaflóru og bólguþætti og aðra heilsufarsþætti hjá fólki á aldrinum 50-70 ára. Þar erum við með þrjá hópa, einn er að auka neyslu á gerjuðum matvælum, anna hópur er einmitt að taka inn vöruna okkar og sá þriðji er viðmiðunarhópur. Það eru ekki komnar formlegar niðurstöður en nú þegar hefur margt mjög fróðlegt komið fram. Einn af mörgum kostum við að gera slíka rannsókn er t.d. að allt er skráð af þriðja aðila. Við komum ekki að þeirri vinnu. Síðan er unnið úr niðurstöðum og þær birtar í ritrýndum vísindatímaritum.“

Fólk á ekki að bíða eftir því að verða veikt
Sem fyrr segir liggur marga ára vinna og rannsóknir á bak við Abdom 1.0, fyrst á hráefninu sjálfu og síðan hefur fjölbreyttur hópur fólks prófað vöruna.

„Ég geri ekki ráð fyrir því að allir upplifi eitthvað kraftaverk sem taka inn Abdom 1.0, áhrifin fara fyrst of fremst eftir því hver staðan er á þarmaflórunni þegar fólk byrjar að taka bætiefnið inn. Fyrst og fremst erum við þó að hugsa um forvarnir og lífsstílinn, að fólk þurfi ekki að bíða eftir því að fá öll vandamálin og verða veikt eða ómögulegt, heldur að sé tilbúið að fjárfesta í heilsunni. Þannig að maður sé að gera eitthvað á hverjum degi sem maður veit að gagnast. Og þegar ég segi veit, þá er ég að vitna í allan þann fjölda rannsóknir sem sýna fram á það. Þetta er í alvörunni að gera okkur gott,“ segir Birna sem hefur legið yfir rannsóknum tengdum þarmaflórunni í mörg ár.

Ljósmynd/Jörth

Ekki redding eða skyndilausn
Birna ítrekar að Abdom 1.0 er ekki skyndilausn heldur lífstíll og það sé einnig mikilvægt að huga að mataræðinu samhliða því að taka inn góðagerlana. „Ég vona að það taki enginn þessari vöru sem einhverri reddingu eða skyndilausn. Þetta er lífsstíll. Jörth er að boða heilbrigðan lífsstíl – náttúran og vísindin saman. Við getum horft til vísindana og nýttnáttúruna. Við þurfum ekki að vera svo vísindaleg að við verðum leiðinleg. Við getum verið vísindaleg en með náttúruna að leiðarljósi. Það er það sem er svo gaman. Að maður tengi svolítið við þetta. Varan og vörumerkið á svolítið að fá þig inn á þetta, að rækta þig, hugsa vel um þig og fjárfesta í heilsunni.“

Birna segir að það sé að færast í aukana að fólk sé að verða meðvitaðra um umhverfið og nýta það sem er í nærumhverfi – og velja íslenskt umfram annað. „Líka eftir COVID, þá finnst mér fólk vera meðvitaðra um heilsuna, að við getum í alvörunni lent á þessum stað. Það er alveg ótrúlegt að upplifa þetta tímabil. Ég heyri allavega að fólk sem var kannski ekkert alltof mikið að velta sér úr heilsutengdum málum hugsar meira og betur um heilsuna í dag og vill ekki lenda á erfiðum stað. Það er kannski þessi forvörn sem fólk er kannski aðeins meira meðvitað um.“

Þarmaflóran mikilvægur hlekkur
Til að heilsan sé í lagi þá er mjög mikilvægt að þarmaflóran sé góð. Ef hún er í ójafnvægi þá eru meiri líkur á að andleg og líkamleg heilsa séu ekki upp á sitt besta. „Nú virðast rannsakendur og helstu sérfræðingar, það er nánast sama hvaða hópa þú talar við, flestir geta sameinast um það að þarmaflóran er mikilvægur hlekkur í líkamsstarfsseminni. Það er sama hvort þú ert að vinna með geðheilsuna eða meltingarveginn, þarmaflóran spilar stórt hlutverk.“

„Þetta er almenn skynsemi og mjög rökrétt og í rauninni erum við búin að finna sameiginlegan flöt sem flestir eru tilbúnir að samþykkja.

Fólk sem glímir við ýmis óþægindi er oft að leita lausna án árangurs. Fólk fær misvísandi ráðleggingar og stendur jafnvel uppi mjög ringlað. Við þurfum að byrja á byrjuninni, að byggja upp þarmaflóruna og þannig græða meltingarveginn. Með þessu móti lagast gjarnan margt annað í kjölfarið, það er ég búin að sjá aftur og aftur í gegnum mína vinnu. Þegar fólk fer að vinna með þarmaflóruna og meltingarveginn þá bara hverfa allskonar vandamál,“ segir Birna að lokum.

Hægt er að nálgast Abdom 1.0 á heimasíðu Jörth.

Fyrri greinMiðaldra 80´s unglingar halda áfram með bestu lögin
Næsta greinSelfyssingar ekki í úrslit