Í kvöld og nótt munu kröftug samskil ganga norðaustur yfir landið. Þeim fylgja suðaustan slagveðursrigning, 13-20 m/sek, hvassast með suðvesturströndinni. Vindhviður við fjöll suðvestanlands og á Miðhálendinu verða allt að 30 m/sek.
Það verður talsverð rigning í kvöld og nótt á sunnan- og vestanverðu landinu og á morgun, laugardag, verður suðaustan 10-18 m/sek og skúrir.
Með úrkomunni má búast við miklum vatnavöxtum víða um land, einkum við Mýrdalsjökul og suður af Vatnajökli. Ferðalangar eru beðnir um að sýna aðgát við vöð, sem geta orðið ófær án mikils fyrirvara.
Líkur eru á eldingum á suðvestanverðu landinu í kvöld og fram yfir miðnætti, á Faxaflóa, Suðurlandi, vestanverðu Suðausturlandi og á Miðhálendinu. Í tilkynningu frá Veðurstofunni er fólk beðið um að forðast vötn, hæðir í landslagi og berangur. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og fylgjast með veðurspám. Nánari upplýsingar um viðbrögð við eldingaveðri eru á upplýsingasíðu almannavarna.

