Þróunarverkefni um málþroska með áherslu á læsi

Leikskólabörn á Hvolsvelli. Mynd úr safni. Ljósmynd/hvolsvollur.is

Í ágúst næstkomandi fer af stað þróunarverkefnið „Snemmtæk íhlutun í leikskólum sem tilheyra Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, með sérstakri áherslu á málþroska og undirbúning undir lestur.“

Verkefnið mun væntanlega standa í eitt og hálft til tvö ár og hefur Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur, verið ráðin verkefnisstjóri í samvinnu við sérfræðinga Skóla-þjónustunnar. Sprotasjóður hefur úthlutað verkefninu styrk að upphæð tæplega 2,3 milljóna króna.

Um er að ræða samstarfsverkefni allra leikskólanna fimm á starfssvæði Skóla-þjónustunnar, leikskólans á Laugalandi, Heklukots á Hellu, Arkar á Hvolsvelli, Mánalands í Vík og Kærabæjar á Kirkjubæjarklaustri. Samtals eru þessir fimm leikskólar með um það bil 260 nemendur. Verkefnið hefst formlega með heilsdags námskeiði alls starfsfólks leikskólanna í ágúst.

Markmið með verkefninu er meðal annars að styrkja og efla málþroska leikskólabarna með áherslu á læsi í víðum skilningi og að öll börn í leikskólum sem tilheyra starfssvæði Skólaþjónustunnar nái hámarksárangri hvað varðar íslenskt mál, tal og boðskipti og undirbúning undir lestur. Einnig er markmiðið að auka samstarf við sérfræðinga og foreldra hvað varðar málörvun og læsi og auka fræðslu á þessu sviði til foreldra.

Fyrri greinGul viðvörun fram á sunnudagsmorgun
Næsta greinÞrír Litháar úrskurðaðir í farbann