
Fjórtán verkefni hljóta samfélagsstyrk Krónunnar í ár og að þessu sinni hlutu þrjú verkefni styrk á Suðurlandi. Þar á meðal er blakdeild Dímonar og Heklu á Hvolsvelli sem mun nýta styrkinn í að koma á fót byrjendanámskeiði í blaki fyrir konur 18 ára og eldri.
Auk þess hlutu Kerhólsskóli á Borg í Grímsnesi og leikskólinn Mánaland í Vík í Mýrdal styrk til kaupa á svokölluðum Bambahúsum sem er umhverfisvænt gróðurhús gert úr endurnýtanlegum efnum. Bambahús nýtast til að rækta grænmeti allt árið um kring og á sama tíma fræða börnin um mikilvægi þess að vita hvaðan einstök matvæli koma.

Gróðurhús sem kennslustofa
Kerhólsskóli á Borg er samrekinn leik- og grunnskóli með um 90 nemendur. Skólinn er útinámsskóli, virkur í Grænfánastarfi og tók á móti sjötta Grænfánanum nú í vor. Hingað til hafa nemendur og starfsfólk plantað trjám, sett niður kartöflur, sykurbaunir, sólblóm og fleira í kerjum utandyra. Lengi hefur staðið til að koma upp gróðurhúsi við skólann sem nýtist báðum deildum og hefja umfangsmeiri og fjölbreyttari ræktun sem hluti af fræðslu nemenda.
„Við þökkum Krónunni kærlega fyrir Bambahúsið sem mun nýtast til að auðga nám nemenda leik- og grunnskóladeildar. Með því að rækta mat og plöntur frá fræi til uppskeru felast ótrúleg námstækifæri fyrir nemendur okkar sem styrkja tengsl þeirra við náttúruna, auk þess sem slík upplifun eykur sjálfstraust barna og trú á eigin getu. Gróðurhús sem kennslustofa gerir okkur líka kleift að bjóða upp á fjölbreytt námsumhverfi og þar með einstaklingsmiðaðra nám,“ segir Anna Katrín Þórarinsdóttir, umsjónarkennari í yngri deild Kerhólsskóla.

Áhersla á umhverfisvitund, hollustu og hreyfingu
Krónan hefur frá árinu 2013 veitt samfélagsstyrki en á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á að ýta undir verkefni sem stuðla að umhverfisvitund eða aukinni lýðheilsu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni. Fjórum Bambahúsum var úthlutað í ár og hefur Krónan lagt ríkari áherslu á að veita styrki til kaupa á slíkum gróðurhúsum. Foreldrafélagið á leikskólanum Leikholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hlaut til að mynda Bambahús frá Krónunni árið 2023 og síðan þá hafa nemendur notast við Bambahúsið til að rækta, læra og kynnast náttúrunni.

