Þrjú útköll hjá BÁ á laugardag

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar til vegna bruna í sumarhúsi í Úthlíð í Biskupstungum kl. 15:30 síðastliðinn laugardag.

Íbúar í næsta bústað gerðu viðvart um eldinn og var hann slökktur af nærstöddum með slökkvitæki. Þarna virðist hafa kviknað út frá gömlu rafmagnsljósi.

Brunavarnir Árnessýslu höfðu fengið tvö önnur útköll fyrr um daginn en kl. 12:30 var tilkynnt um eld í ruslagámi við Dalbraut á Laugarvatni. Gámurinn var alelda en þegar slökkvistarfi lauk mátti sjá leifar af einnota grilli meðal þess sem enn var óbrunnið.

Á ellefta tímanum á laugardagsmorgun var svo tilkynnt um gróðureld á svæði Skotíþróttafélags Suðurlands á Hrauni í Ölfusi.

Varðeldur við Vallaskóla
Sinueldar loguðu einnig í Rangárþingi og Mýrdal um helgina. Í gær var tilkynnt um eld skammt frá Laugalandi í Holtum og nóttina áður hafði slökkviliðið í Vík verið kallað út vegna gróðurelds skammt frá Stóru-Heiði.

Lögreglan minnir á að sinubrenna er bönnuð og nú eru mófuglar flestir búnir að verpa og því hætta á að ungviðið brenni ef kveikt er í.

Að lokum má sjá í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi að síðastliðinn þriðjudag voru höfð afskipti af unglingum sem kveiktu „varðeld“ við Vallaskóla á Selfossi. Þeim gert að slökkva eldinn og í framhaldinu rætt við foreldra þeirra ásamt því að barnavernd var gert viðvart um afskiptin.

Fyrri greinLaxabakki friðlýstur
Næsta greinBáran og Drífandi mótmæla uppsögnum ræstingafólks á HSU