Þrjú sveitarfélög gefa út sameiginlega atvinnumálastefnu

Atvinnumálastefnan var kynnt á fundi í Tryggvaskála á dögunum. Ljósmynd/Háskólafélag Suðurlands

Fulltrúar Flóahrepps, Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Árborgar ásamt Háskólafélagi Suðurlands og RATA hafa unnið nýja atvinnumálastefnu fyrir neðri hluta Árnessýslu.

Atvinnumálastefnan var kynnt á dögunum en sveitarfélögin og starfsmenn Háskólafélags Suðurlands hafa unnið ötullega að henni undanfarna mánuði. Í seinni hluta verkefnisins kom Hafdís Huld Björnsdóttir hjá RATA inn í teymið og leiddi úrvinnslu stefnunnar en teymið átti virkilega gott samstarf.

„Vinnan gekk mjög vel. Við búum á stóru atvinnusvæði og samstarf sveitarfélaga á þessu svæði er mikilvægt til að laða að okkur fjölbreytta atvinnustarfsemi. Það má segja að allt sem gerist hérna megin Hellisheiðar sé ávinningur fyrir okkur öll,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

„Með stefnunni höfum við markað sameiginlega sýn til framtíðar og núna getur hvert og eitt sveitarfélag unnið nánar með áherslur og einstaka verkefni í sínu nærumhverfi,“ bætir Bragi við.

Raddir íbúa fengu sérstakan sess
Íbúar tóku virkan þátt við gerð stefnunnar, annars vegar með þátttöku í íbúakönnun og á íbúafundum hins vegar. Raddir íbúa fengu sérstakan sess og margt áhugavert kom í ljós við söfnun gagna og við úrvinnslu þeirra.

Stefnan sem slík er leiðbeinandi skjal fyrir sveitarfélögin og framkvæmdaraðila þeirra og er hún sameiginleg fyrir sveitarfélögin þrjú. Markmið og áherslur eru sameiginlegar en taka þarf til greina að verkefni sveitarfélaganna eru mis langt á veg komin. Hvert sveitarfélag mun því vinna að innra skipulagi sem samræmist stefnunni samhliða samstarfi við hin sveitarfélögin.

Hægt er að nálgast stefnuna hér.

Fyrri greinLægri gjöld, fleiri tækifæri
Næsta greinSumartónleikar í Skálholti 50 ára í ár