Þrjú slys á sama tíma

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var mikill viðbúnaður hjá lögreglu og sjúkrabílum um miðjan dag á fimmtudag þegar tilkynnt var um þrjú slys á sama tíma.

Alvarlegasta slysið varð á gatnamótum Eyrarbakkavegar og Þorlákshafnarvegar þar sem tveir fólksbílar lentu í hörðum árekstri. Tveir voru í öðrum bílnum og voru meiðsli þeirra minniháttar en ökumaður hins bílsins var einn á ferð og var hann fluttur töluvert slasaður á sjúkrahús, en þó ekki í lífshættu.

Á sama tíma varð barn á hlaupahjóli fyrir bifreið á íbúðargötu á Selfossi og var það flutt til aðhlynningar á sjúkrahús en meiðslin reyndust ekki alvarleg.

Þriðja slysið sem tilkynnt var um á sama tíma varð þegar barn á reiðhjóli varð fyrir bíl. Ökumaðurinn tilkynnti um slysið en barnið hljóp af vettvangi. Fljótlega fékk lögreglan upplýsingar um að móðir þess hafi farið með það til skoðunar á heilsugæslu. Barnið reyndist ekki alvarlega slasað en hlaut mar og skrámur.

Fyrri greinStokkseyringar sterkari á svellinu
Næsta grein44 keppendur í Bláskógaskokki