Þrjú rótgróin hestamannafélög sameinast

Á Landsmóti hestamanna. Mynd úr safni.

Hestamannafélögin Logi í Biskupstungum, Smári í Hreppum og Trausti í Laugardal og Grímsnesi samþykktu öll á aðalfundum sínum í sumar að sameina skildi félögin þrjú í eitt félag.

Félögin eru öll rótgróin í uppsveitunum, Smári stofnað árið 1945, Logi árið 1959 og Trausti árið 1960. Starfsstjórn var skipuð þann 1. júlí síðastliðinn og hefur hún unnið að undirbúningi fyrir sameininguna en stefnt er að því að félagið verði formlega stofnað á aðalfundi í janúar næstkomandi.

Meðal verkefna starfsstjórnarinnar er að finna nafn á félagið en í sameiningarviðræðum félaganna var ákveðið að nöfn gömlu félaganna þriggja komi ekki til greina sem nafn á sameinað félag.

Því hefur verið ákveðið að efna til nafnasamkeppni og óskar starfsstjórnin eftir tillögum að nýju nafni frá félagsmönnum hestamannafélaganna og öðrum íbúum á svæðinu. Starfsstjórnin mun velja fimm nöfn úr innsendum nafnatillögum og síðan verður nafnakosning á aðalfundinum í janúar. Þeir sem vilja skila inn tillögum að nafni geta gert það í tölvupósti á starfsstjorn@gmail.com, ekki seinna en 20. desember næstkomandi.

Sameinaða félagið hefur nú þegar haldið nokkra vel heppnaða viðburði. Farið var í félagsreiðtúr um Þingvelli í sumar og í haust hélt félagið vinnusýningu með Benedikt Líndal, tamningameistara.

Fyrri greinHalldóra kosin 3. varaforseti ASÍ
Næsta greinÁskorun til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands