Þrjú ný götuheiti samþykkt í Hrunamannahreppi

Gröf til vinstri og Laxárhlíð fyrir miðri mynd, séð innmeð Högnastaðaásnum. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur samþykkt götuheiti á þrjár götur vegna deiliskipulagsvinnu í Gröf og Laxárhlíð í Grafarhverfinu í Hrunamannahreppi.

Samþykkt var að a-gata fái nafnið Reynihlíð, b-gata fái nafnið Víðihlíð og c-gata nafnið Birkihlíð.

Að sögn Halldóru Hjörleifsdóttur, oddvita, óskaði sveitarstjórn eftir því að fá sendar hugmyndir af nöfnum á götum.

„Við fengum sendar hugmyndir frá Guðríði Þórarinsdóttur og í framhaldi af því þá hittum við Sigríði Guðmundssdóttur í Laxárhlíð og Guðrúnu Emilsdóttur í Sunnuhlíð en svæðið sem um ræðir er úr landi fjölskyldu þeirra, það er Gröf. Þar var samþykkt að láta göturnar enda á hlíð sem væri tenging við Sunnuhlíð og Laxárhlíð og að nöfnin myndu byrja á trjánöfnum. Því var úr að ákveðið var að kalla þær Reynihlíð, Birkihlíð og Víðihlíð,“ sagði Halldóra í samtali við sunnlenska.is.

Á Flúðum hefur verið skortur á leiguhúsnæði og minni íbúðum um alllangt skeið og er markmið deiliskipulagsins að bæta þar úr. Á undanförnum árum hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um söfn og safnatengda starfsemi á þessu svæði.

Gert er ráð fyrir íbúðarlóðum við Birkihlíð og Víðihlíð en við Reynihlíð eru einnig verslunar- og þjónustulóðir. Íbúðarlóðirnar sem um ræðir eru ýmist einbýlishúsa-, parhúsa- eða raðhúsalóðir og á tveimur lóðum er heimilt að byggja lítil fjölbýlishús á tveimur hæðum.

Nýja deiliskipulagið fyrir Grafarhverfið.
Fyrri greinGeta ekki unað því að dregið sé úr þjónustu
Næsta greinFSu í sjónvarpið