Þrjóskur fákur á þjóðveginum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglumenn á Höfn sinntu verkefni á Suðurlandsvegi í síðustu viku þegar tilkynnt var um laust hross á veginum snemma morguns.

Svarta myrkur var á vettvangi og fylgdi sögunni að tilkynnandi hefði þá þegar reynt að teyma eða reka hrossið af veginum en það lét sér ekki segjast og fór alltaf aftur upp á veg og tók sér stöðu á miðlínu hans. Að endingu teymdi tilkynnandi það inn í girðingu við veginn og upplýsti lögreglan talinn eiganda um stöðu mála.

Ökumenn eru hvattir til þess að gæta sín á ferðum sínum. Í öllum sveitum getur það gerst að búfénaður, hverju nafni sem hann nefnist, flækist út á vegi og fyrir bíla. Austan til í umdæminu er síðan gjarnan von á hreindýrum á vegum.