Þrjár athugasemdir vegna stórra ökutækja

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi skoðaði 21 ökutæki í svokallaðri vegaskoðun í síðustu viku.

Þar framkvæma lögreglumenn úttekt á ákveðnum atriðum sem skoða má með sjónskoðun tækjanna.

Langflest ökutækin reyndust í góðu lagi en gerð var athugasemd við einn ökumann þar sem kvörðun í ökurita bifreiðar hans reyndist útrunnin. Annar ökumaður reyndist vera með útrunnin ökuréttindi og í þriðja ökutækinu var veitt áminning vegna ljósabúnaðar sem var ekki í lagi. Almennt sektar lögreglan ekki ökumenn nema að fleiri en eitt ljós sé bilað, eða ef áminningu um að lagfæra ljósin sé ekki sinnt.

Í vegaskoðuninni voru einnig tveir fólksbílar boðaðir til skoðunar. Annar vegna ástands hjólbarða og hin þar sem framan á hana vantaði bílnúmerið. Báðir ökumennirnir eiga von á sekt vegna þessara brota.