Þrír sunnlenskir veitingastaðir sköruðu framúr

Bjarki Hilmarsson á Geysi Hótel Restaurant ásamt Sæmundi Kristjánssyni fulltrúa dómnefndar og frú Elizu Reid. Ljósmynd/Aðsend

Sunnlenskir veitingastaðir komu, sáu og sigruðu þegar Icelandic Lamb Award of Excellence viðurkenningar voru veittar síðastliðinn fimmtudag.

Sunnlendingar voru með fullt hús í flokki sælkeraveitingastaða þar sem þrír veitingastaðir fengu viðurkenningu. Það voru Geysir Hótel Restaurant á Geysi í Haukadal, Hver Restaurant á Hótel Örk í Hveragerði og Silfra Restaurant á Ion hótelinu á Nesjavöllum.

Award of Excellence viðurkenningarnar voru nú veittar í fjórða sinn en það er markaðsstofan Icelandic Lamb sem veitir þær veitingastöðum sem skarað hafa fram úr á liðnu ári.

Eliza Reid, forsetafrú, ávarpaði samkomuna og veitti viðurkenningarnar, sem í ár var skipt í þrjá flokka en með þeirri skiptingu var tryggt að flóra íslenskra veitingahúsa endurspeglist í hópi viðurkenningahafa. Flokkarnir þrír voru sælkeraveitingastaðir (fine dining), bistro og götumatur (casual dining). Í ár sátu Sæmundur Kristjánsson, Guðbjörg Gissurardóttir og Pétur Snæbjörnsson í dómnefnd, en hún lagði mat á markaðs- og kynningarefni staðanna, þátttöku þeirra í samstarfsverkefninu, nálgun þeirra að lambakjöti, og hráefnaval.

Í flokki bistrostaða voru það Heydalur, KK Restaurant og Mímir sem fengu viðurkenningu og í flokknum götumatur voru það Fjárhúsið, Lamb Street Food og Le Kock.

Gunnari Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands veitti viðurkenningarnar ásamt frú Elizu Reid og þakkaði hann veitingamönnum sérstaklega fyrir þau mikilvægu störf sem þeir vinna við að kynna íslensk matvæli. Aðspurður sagði Gunnar að nú sé lag og fullkomið tækifæri til þess að kynna nýjum markhópi fyrir okkar einstöku hráefnum og hefðum. Veitingastaðir þurfi að huga að rótum sínum og setja íslensk hráefni í forgrunn okkur öllum til hagsbóta.

Jakob Árnason á Hver Restaurant ásamt Sæmundi Kristjánssyni fulltrúa dómnefndar og frú Elizu Reid. Ljósmynd/Aðsend
Sindri Guðbrandur Sigurðsson á Silfra Restaurant ásamt Sæmundi Kristjánssyni fulltrúa dómnefndar og frú Elizu Reid. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinForsetahjónin kynntu sér miðbæinn á Selfossi
Næsta greinTveir handteknir með tugi kílóa af kannabisefnum