Þrír Litháar úrskurðaðir í farbann

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fimmtudaginn 4. apríl síðastliðinn handtók lögreglan á Suðurlandi þrjá litháíska karlmenn, einn á þrítugsaldri og tvo á sextugsaldri, í sitthvoru sumarhúsinu í Árnessýslu. Mennirnir eru grunaðir um stórfellda kannabisræktun í sumarhúsunum.

Hald var lagt á vel á þriðja hundrað fullvaxnar kannabisplöntur og auk þess nokkuð magn peninga í íslenskri og erlendri mynt.

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði mennina í gæsluvarðhald þann 5. apríl og átti það að renna út kl. 16:00 í dag. Tveir af þremur mannanna kærðu úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og staðfesti Landsréttur úrskurðina.

Mennirnir voru færðir fyrir Héraðsdóm Suðurlands á nýjan leik í morgun þar sem gerð var krafa um að mennirnir sættu farbanni til 10. maí næstkomandi og féllst dómari á það.

Í þessu máli rannsakar lögreglan stórfellda framleiðslu á fíkniefnum og peningaþvætti henni tengd. Lögreglan mun ekki gefa upp frekari upplýsingar um stöðu málsins eða efnisatriði þess að sinni.

Fyrri greinÞróunarverkefni um málþroska með áherslu á læsi
Næsta greinHamar með bakið upp við vegg