Þrír garðar í Hveragerði verðlaunaðir

Árni og Elísa í Dalsbrún 11 taka við viðurkenningunni frá Bryndísi Eir Þorsteinsdóttur, formanni umhverfisnefndar og Kristínu Snorradóttur garðyrkjufulltrúa. Ljósmynd/hveragerdi.is

Umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar hefur valið þá garða sem hljóta viðurkenningu sem fegurstu garðar bæjarfélagsins árið 2020.

Vegna sérstakra aðstæðna í samfélaginu var ekki hefðbundin verðlaunaafhending, heldur afhentu formaður umhverfisnefndar, garðyrkjufulltrúi og bæjarstjóri garðeigendum viðurkenningar í hverjum garði fyrir sig. Garðarnir munu svo verða opnir almenningi til skoðunar, venju samkvæmt, næsta sumar.

Eigendur Bláskóga 9, Þorsteinn Guðmundson og Hrói Leví Eco, hljóta verðlaun fyrir sérstaklega vel heppnaða endurnýjun á gömlum garði í elsta bæjarhluta Hveragerðisbæjar. Eins og víða er þessum slóðum er garðurinn mjög stór og hefur hann þjónað ýmsum tilgangi í gegnum tíðina en hafði farið í nokkra órækt á síðari árum. Gömul tré sem felld voru hafa verið nýtt afar hugvitsamlega til dæmis með því að búa til drumba sem aðskilja og hækka upp beðin frá grasinu, einnig hafa greinar fallinna trjáa verið nýttar sem uppbinding fyrir nýju trén á skemmtilegan og náttúrulegan hátt. Annað sem féll til í garðinum svo sem grjót var einnig nýtt á mjög skemmtilegan hátt, en úr varð sérstaklega skemmtilegur og hlýlegur garður.  Gróðurvalið í garðinum er fjölbreytt og er flott sambland af gömlum og nýjum trjám og runnum, ásamt fjölæringum inná milli.

Eigendur Valsheiðar 6, Ingibjörg Sverrisdóttir og Óttar Baldursson, hljóta verðlaun fyrir einstaklega fallegan garð sem þrátt fyrir ungan aldur er orðinn fallega gróinn. Umhirða planta er einstaklega góð og flæðið á milli stíga, palla og beða kemur skemmtilega út í bogalínum sem brýtur garðinn upp á spennandi hátt. Garðurinn hefur uppá margt að bjóða og er hver krókur og kimi nýttur, hvort sem það er fyrir beð, göngustíg, pall, gróðurhús, grillsvæði, hjólageymslu eða bílaplan. Garðurinn hlaut verðlaun árið 2008 en hann þótti þá einstaklega vel heppnaður nýr garður og er gaman til þess að vita að því góða starfi hefur verið haldið áfram af mikilli list.

Eigendur Dalsbrúnar 11, Árni Helgason og Elísa Símonardóttir, hljóta verðlaun fyrir sérstaklega fallegan nýlegan garð. Þó garðurinn sé ekki sérlega stór er rýmið nýtt hugvitsamlega, bæði hvað gróður varðar en einnig þegar kemur að stéttum og pöllum. Allt í garðinum er unnið af einskærri natni og hugviti enda eru eigendur mikið hagleiksfólk. Gróðurvalið í garðinum er fjölbreytt stílhrein blanda af runnum og fjölæringum. Garðurinn sýnir svart á hvítu að hægt er að gera garða ótrúlega aðlaðandi á furðu skömmum tíma í kringum nýbyggingar.

Frá þessu er greint á heimasíðu Hveragerðisbæjar.

Eigendur Bláskóga 9, Þorsteinn Guðmundson og Hrói Leví Eco.
Eigendur Valsheiðar 6, Ingibjörg Sverrisdóttir og Óttar Baldursson.
Fyrri greinEnginn tekinn fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur
Næsta greinLokað við Landvegamót vegna malbikunar