Þrír fluttir með þyrlu á sjúkrahús

Um borð í TF-LÍF. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á bráðamóttöku í Reykjavík eftir harðan árekstur jeppa og smárútu á Biskupstungnabraut síðdegis í dag.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar tildrög slyssins en bílarnir komu úr gagnstæðum áttum og lentu beint framan á hvor öðrum.

Mikill viðbúnaður var vegna slyssins en meiðsli fólksins voru ekki jafn alvarleg og talið var í fyrstu. Alls voru þrettán einstaklingar í bílunum tveimur, allt erlendir ferðamenn.

Þeir þrír sem voru mest slasaðir voru fluttir með þyrlu til Reykjavíkur en tíu einstaklingar voru fluttir til aðhlynningar á bráðamóttöku HSU á Selfossi.

Fyrri greinUmferðarslys á Biskupstungnabraut
Næsta greinSunnlendingar leita á Snæfellsnesi