Sérsveit og lögregla voru kölluð að fangelsinu á Litla-Hrauni á tíunda tímanum í gærkvöldi eftir að þrír fangar réðust á fangaverði. Fangaverðirnir voru fluttir til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands en eru ekki alvarlega slasaðir.
Vísir greindi fyrst frá þessu og staðfesti Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, málavexti. Að sögn Birgis yfirbuguðu lögreglu- og sérsveitarmenn fangana þrjá.
„Þetta er mögulega refsiverð háttsemi, mögulegt brot gegn valdstjórninni. Slíkt er alltaf skoðað og fer í farveg innan lögreglu,“ segir Birgir.

