Þrettán umferðarslys í síðustu viku

Harður árekstur varð á gatnamótum Þorlákshafnarvegar og Eyrarbakkavegar síðastliðinn miðvikudag þar sem jeppi og fólksbíll lentu saman. Ljósmynd/Jóhanna Petersen

Þrettán umferðarslys voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku.

Banaslys varð á þjóðvegi 1 á fimmtudag þegar fólksbíll og sendibíll lentu í árekstri vestan Kúðafljóts. Þar lést 65 ára karlmaður og eiginkona hans, sem var farþegi í bílnum slasaðist mikið. Ökumaður sendibílsins er nær ómeiddur. Tildrög slyssins eru í rannsókn.

Ökumaður á hlaupahjóli slasaðist á höfði þegar hann féll af því í Vík síðastliðinn sunnudag. Hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Í hinum ellefu umferðaróhöppunum sem tilkynnt voru til lögreglu voru meiðsli fólks ekki alvarleg.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinEngin veiði í opnuninni
Næsta greinÞingvellir viðurkenndir sem fyrsta Varðan á Íslandi