Umhverfisverðlaun Rangárþings eystra 2025 voru veitt á Kjötsúpuhátíðinni á dögunum. Skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins veitti verðlaun í þremur flokkum; fyrir einkagarð, fyrirtæki og bóndabýli.
N1 á Hvolsvelli var valið snyrtilegasta fyrirtækið. Umhverfið allt í kringum fyrirtækið er til fyrirmyndar og snyrtilegt í alla staði. Nýlega hafa húsið og lóðin verið tekin í gegn og máluð.


Fríða Björk Hjartardóttir og Ragnar Lárusson, bændur og ábúendur í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum, tóku við verðlaunum fyrir snyrtilegasta býlið en þar á bæ er snyrtimennskan algjörlega til fyrirmyndar.
Snyrtilegasti garðurinn var svo valinn Túngata 1 á Hvolsvelli en þar er einstaklega fallegur og vel hirtur garður. Augljóst er að þau Tryggvi Sigurður Bjarnason og Steina Arnardóttir hafa lagt mikla vinnu í að gera garðinn fallegan og snyrtilegan í alla staði.
