Þremur bjargað af bílþaki í Krossá

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Klukkan 13 í dag barst björgunarsveitum á Hvolsvelli og Hellu hjálparbeiðni frá ferðamönnum sem fest höfðu bíl í Krossá. Þar voru á ferð tveir erlendir ferðamenn með leiðsögumanni.

Björgunarsveitin Dagrennig á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitin á Hellu fóru inn í Þórsmörk til aðstoðar. Bíll frá ferðaþjónustufyrirtækinu var þá kominn á staðinn, og yfir Krossá. Fólkið var komið upp á þak bílsins, og beið björgunar.

Þau höfðu ekki blotnað við að fara úr bílnum, en þurftu að bíða á þaki bílsins í 2 tíma og var orðið nokkuð kalt, enda talsvert frost í Þórsmörk. Þeim var svo komið í land þegar búið var að tryggja aðstæður og bíllinn var dreginn óskemmdur upp úr ánni.

Eftir að hafa náð í sig hlýju aftur inni í heitum bíl, hélt fólkið för sinni áfram með leiðsögumanninum. Aðgerðum björgunarsveitanna var lokið rétt fyrir 15.

Fyrri greinÞorvaldur Gauti með óvænt afrek og Selfoss Classic viðburður ársins
Næsta greinSelfoss elti allan seinni hálfleikinn