Þrálát gosmóða næstu daga

Á Selfossi hefur önnur eins gosmóða ekki sést í áratugi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gasdreifingarspá veðurstofunnar gerir ráð fyrir gasmengun (SO2) frá gosinu á Suðurlandi og Vesturlandi í dag. Búast má áfram, við gosmóðu allvíða á landinu og gæti hún orðið þrálát næstu daga.

Útlit er fyrir hæga breytilega átt þangað til síðdegis á mánudag en þar á eftir er spáð norðan 3-8 m/s sem gæti verið nægur vindur til að hreyfa við móðunni.

Veðurstofan bendir fólki á að fylgjast með á vef Umhverfis- og Orkustofnunar, þar sem gosmóða kemur fram á mælum sem fínt svifryk (PM1) ásamt örlítilli hækkun í brennisteinsdíoxíði (SO2). Frá því í gærkvöldi hafa loftgæði í Reykholti í Biskupstungum til dæmis mælst óholl.

Á vefnum er einnig hægt að finna upplýsingar um viðbrögð við gosmóðu, en meðal annars ættu viðkvæmir einstaklingar, börn og aldraðir að forðast langa dvöl utandyra.

Fyrri greinReynslan skilaði stórsigri Uppsveita
Næsta greinEldsprækir Ægismenn röðuðu inn mörkum