Þórunn ráðin skólastjóri

Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að ráða Þórunni Jónasdóttur skólastjóra í Flóaskóla.

Þórunn, sem í dag er skólastjóri Hörðuvallskóla í Kópavogi, var ein af níu umsækjendum um starfið, hluti þeirra var boðaður í viðtal og tveimur þeirra var boðið framhaldsviðtal í kjölfarið.

Eftir ítarlega yfirferð yfir umsóknirnar samþykkti sveitarstjórn samhljóða að bjóða Þórunni starfið. Hún tekur við starfinu af Gunnlaugu Hartmannsdóttur, sem síðla veturs var ráðin deildarstjóri skólaþjónustu hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.

Áður en Þórunn varð skólastjóri Hörðuvallaskóla var hún áður aðstoðarskólastjóri þar og þar áður deildarstjóri og staðgengill skólastjóra frá stofnun Hörðuvallaskóla árið 2006. Hún lauk meistaranámi í stjórnunarfræðum menntastofnana árið 2014 og B.Ed viðbótarnámi í stærðfræðikennslu árið 2007. Hún öðlaðist leyfisbréf til að starfa sem grunnskólakennari árið 1989 að afloknu B.Ed námi til kennararéttinda.

Fyrri greinSúkkulaðismákökur (vegan og glútenfríar)
Næsta greinÞór sótti vélarvana smábát undan Kötlutanga