Þórunn Anna dúxaði í FSu

Þórunn Anna Guðbjartsdóttir. Ljósmynd/FSu

Þórunn Anna Guðbjartsdóttir frá Selfossi er dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á haustönn 2020.

Síðastliðinn laugardag brautskráðust 53 nemendur frá skólanum. Vegna samkomutakmarkana var athöfninni skipt í tvennt og streymt frá henni á netinu.

Þórunn Anna hlaut viðurkenningu frá Hollvarðasamtökum FSu og lét ekki staðar numið þar heldur fékk hún einnig viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði, íslensku og spænsku.

Aðrir nemendur sem hlutu viðurkenningar voru Íris Beata Dudziak, sem hlaut viðurkenningar fyrir góðan árangur í félagsvísindum og þýsku. Martin Bjarni Guðmundsson hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í þýsku. Katrín Birna Sigurðardóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í dönsku. Sara Lind A. van Kasteren hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku. Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir og Thelma Dögg Tómasdóttir hlutu viðurkenningar fyrir góðan árangur í hestaíþróttum.

Brautskráningin var afar óvenjuleg þar sem eingöngu brottfarendur og þrír stjórnendur skólans voru viðstaddir. Nemendum var skipt í tvo hópa og athöfnunum streymt á netinu.

 

Fyrri greinReynir Freyr semur við knattspyrnudeild Selfoss
Næsta greinÁ 176 km/klst á Hellisheiði