„Þörfin hefur ekki verið ofmetin“

Brynhildur Geirsdóttir formaður Sorotimistaklúbbs Suðurlands, Fanney Björg Karlsdóttir aðstoðarverkefnisstjóri og Hildur Jónsdóttir verkefnisstjóri tóku við styrk úr Jafnréttissjóði fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Suðurlands.

Nýverið hlutu Sigurhæðir – þjónusta við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi – fjögurra milljón króna styrk úr Jafnréttissjóði Íslands.

Ásóknin í þjónustuna, sem opnaði í mars síðastliðnum, hefur verið mun meiri en gert var ráð fyrir. „Sigurhæðum hefur verið tekið opnum örmum af notendum, nærsamfélaginu á Suðurlandi og fjöldamörgum opinberum aðilum, sjóðum, einstaklingum og Soroptimistun um land allt, sem hafa veitt styrki til verkefnisins,“ segir Hildur Jónsdóttir, verkefnastjóri og meðlimur Soroptimistaklúbbs Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is.

„Frumkvæðið að Sigurhæðum tók Soroptimistaklúbbur Suðurlands, en öll sunnlensk sveitarfélög, lögreglan á Suðurlandi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Kvennaráðgjöfin hafa gengið til formlegs samstarfs um verkefnið. Nú er svo komið að kostnaður vegna undirbúnings, stofnunar og reksturs Sigurhæð a fyrsta árið er full fjármagnaður sé miðað við upphaflega kostnaðaráætlun, en hún hljóðaði upp á 21,2 milljón króna.“

Tvöföld meiri ásókn en áætlanir gerðu ráð fyrir
„Úrræðið hefur núna verið opið í þrjá mánuði og aðsókn er mun meiri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir eða um það bil tvöföld. Sýnir það og sannar að þörfin fyrir úrræði sem þetta á Suðurlandi hefur ekki verið ofmetin. Í haust munu Sigurhæðir enn á ný leita til styrktaraðila til að fjármagna næsta starfsár og vonandi tryggja fjárhagslegan grundvöll Sigurhæða til framtíðar,“ segir Hildur.

Sem fyrr segir hlutu Sigurhæðir nýverið fjögurra milljóna króna styrk úr Jafnréttissjóði Íslands. Sá Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um að afhenda styrkinn við formlega athöfn í Björtuloftum í Hörpu. Alls barst 81 umsókn í sjóðinn og úthlutað var 25 milljónum króna til átta verkefna. Í greinargerð með úthlutuninni til Sigurhæða segir meðal annars að gildi samstarfsins er framúrskarandi og verkefnið hafi alla burði til að skila tilætluðum árangri og ávinningi.

Rétt um tveimur vikum áður, eða þann 1. júní síðastliðinn, úthlutaði Svandís Svavarsdóttir heil­brigðisráðherra Sigurhæðum veglegan styrk, en úthlutunin var til sérstakra gæða- og nýsköpunarverkefna í heilbrigðisþjónustu. Verkefnin þurftu að hafa skýran ávinning fyrir heil­brigðis­þjónustuna og þann hóp sem þjónustan beinist að. Var alls úthlutað rúmlega 28 mill­jónum króna til 13 verkefna Tveir hæstu styrkirnir námu fjórum milljónum króna og hlutu Sigurhæðir annan þeirra. Heilbrigðisstofnun Suðurlands var meðumsækjandi með Sigurhæðum og er styrknum ætlað að þróa faglegan hluta meðferðarstarfs Sigurhæða.

(F.v.) Elísabet Lorange listmeðferðarfræðingur og teymisstýra, Jóhanna Kristín Jónsdóttir sálfræðingur og sérfræðingur í EMDR áfallameðferð og Helga Jóna Jónsdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur.

Leggja áherslu á persónulega nálgun
„Sigurhæðir er úrræði fyrir konur á Suðurlandi sem eru eða hafa verið þolendur ofbeldis, hvort sem það er kynferðislegt, andlegt, líkamlegt eða til­finn­ingalegt. Innan Sigurhæða er þeim boðinn öruggur vettvangur og aðstoð fagfólks til að vinna úr áföllum sem eiga rætur í ofbeldinu,“ segir Hildur.

„Elísabet Lorange list­meðferðar­fræðingur, Helga Jóna Jónsdóttir fjölskyldu­með­ferðar­fræðingur og Jóhanna Krist­ín Jónsdóttir sálfræðingur sinna meðferðinni. Elísa­bet og Helga Jóna eru reynslu­miklir meðferðaraðilar sem sjá um forviðtöl og ráðgjafar- og stuðn­ings­viðtöl ásamt því að sinna hóp­meðferðarstarfi Sigur­hæða þar sem m.a. er beitt aðferðum listmeðferðar. Jóhanna Kristín er almennur sál­fræðingur með viðbótar­menntun á sviði meðferðar og hefur sér­hæfða þjálfun og reynslu í EMDR áfallameðferð. Sigurhæðir er fyrsta úrræðið á sviði þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Íslandi sem byggir á EMDR áfallameðferð og er nýmælið í þjónustunni við þennan hóp því einkum fólgið í henni. EMDR áfalla­meðferðin er gagnreynd sál­fræði­meðferð sem er ætluð skjól­stæðingum Sigurhæða á síðari stigum meðferðar.“

„Sor­optimistasystur manna vaktir sem sinna móttöku, tíma­pönt­unum og síma, en koma að öðru leyti ekkert að málefnum skjól­stæðinga. Hafa þær allar sótt undir­búnings­námskeið vegna starfa sinna ásamt því að undir­rita þagnareið. Í Sigurhæðum er lögð áhersla á persónulega nálgun þar sem konur fá tækifæri að vinna á eigin hraða og út frá eigin forsendum. Öll þjónusta er gjaldfrjáls og nafn­leyndar er gætt,“ segir Hildur ennfremur.

Margháttuð þjónusta
Hildur segir að auk meðferðarinnar er margháttuð önnur þjónusta samhæfð starfsemi Sigurhæða. „Lögreglan á Suðurlandi tekur þar á móti þeim skjólstæðingum sem óska eftir upplýsingum og ráðgjöf varðandi þjónustu lögreglunnar. Verið getur að viðkomandi skjólstæðingur sé að velta fyrir sér hvort hún geti kært eða eigi að kæra og veitir lögreglan upplýsingar um hvað það getur falið í sér að fara kæruleiðina – en líka að gera það ekki. Ákvörðunin liggur alltaf í höndum brotaþolans.“

„Þá er lögfræðileg ráðgjöf einnig í boði innan Sigurhæða, sem veitt er af Kvennaráðgjöfinni. Hún hefur verið starfandi síðan 1984 og er m.a. vel mönnuð lögfræðingum. Inn í ofbeldismál geta blandast mörg lagaleg álitaefni, eins og hjónaskilnaðir, forræðismál, umsátur, stafrænt ofbeldi og fjárhagslegt ofbeldi og getur allt þetta gert málefni skjólstæðinga lagalega flókin.“

Konur sem ekki tala íslensku sérstakur áhættuhópur
„Konur sem ekki tala íslensku og eru beittar ofbeldi eru sérstakur áhættuhópur. Liður í ofbeldinu getur verið að halda frá þeim upplýsingum um stöðu sína, réttindi, möguleika og íslenskt samfélag almennt, sem getur haft þau áhrif að þær þekkja ekki hvernig þær geta brugðist við og losnað úr ofbeldissambandi. Innan Sigurhæða er auk annarrar meðferðar veitt réttindafræðsla og er túlkun á hvaða tungumál sem er í boði endurgjaldslaust,“ segir Hildur.

Sigurhæðir eru staðsettar að Skólavöllum 1 á Sel­fossi. Í júlímánuði verður lokað en alltaf er hægt að panta viðtal í gegnum heimasíðuna sigurhaedir.is, facebook-síðuna Sigurhæðir og í síma 834 5566. Í neyðartilvikum skal ávallt hafa samband við 112.

Fyrri greinForsætisráðherra ávarpaði Oddahátíð
Næsta greinAustasti kaflinn tekinn í notkun í haust