Þórður í Skógum sæmdur fyrsta gullmerki Oddafélagsins

Ágúst Sigurðsson og Þórður Tómasson, 100 ára heiðursfélagi og fyrsti handhafi gullmerkis Oddafélagsins.

Þórður Tómasson í Skógum, heiðursfélagi Oddafélagsins, var sæmdur fyrsta gullmerki félagsins í virðingar og þakkarskyni fyrir söfnun, varðveislu og miðlun menningararfsins.

Stjórn Skógasafns hélt Þórði Tómassyni í Skógum afmælishóf í tilefni af 100 ára afmæli hans þann 28. apríl. Þangað komu góðir gestir: forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson; þjóðminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir; Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður og þrír stjórnarmenn úr Oddafélaginu, en Þórður hefur lengi verið heiðursfélagi Oddafélagsins.

Ágúst Sigurðsson, formaður Oddafélagsins, flutti Þórði heillaóskir félagsmanna og sæmdi hann fyrsta gullmerki félagsins í heiðurs- og þakklætisskyni fyrir störf sín við söfnun, varðveislu og miðlun menningarminja. Merkinu fylgdi heiðursskjal, skrautritað af Vigdísi Guðjónsdóttur. Þar stendur:

Heill þér tíræðum
heiðursfélagi
Þórður Tómasson
í Skógum.

Í tilefni aldarafmælis þíns
og með þökk fyrir elju þína
við fræðistörf, ritstörf
og uppbyggingu Skógasafns
vill stjórn Oddafélagsins
sæma þig fyrsta gullmerki félagsins.

Lengi munu verk þín lifa með þjóð vorri.

Fyrri greinKFR tapaði naumlega
Næsta greinUngu Selfyssingarnir fældu Kríuna burtu