Þorðu að opna stað sem selur ekki kokteilsósu

Tómas Þóroddsson og Elva Dögg Þórðardóttir, eigendur Vors. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrir skömmu opnaði veitingastaðurinn Vor á Selfossi. Eigendur staðarins eru Elfa Dögg Þórðardóttir og Tómas Þóroddsson en þau eru bæði reynsluboltar í veitingarekstri.

„Við Elfa erum búin að þekkjast síðan úr grunnskóla og síðasta áratug höfum við bæði verið á fullu í ferðaþjónustunni og veitingarekstri,“ segir Tómas í samtali við sunnlenska.is.

„Alltaf þegar við Elfa hittumst förum við að tala um veitingarekstur og ég hafði hugsað að það væri gaman að vinna með henni þar sem við erum á sömu línu í þessum bransa. Hún var greinilega að hugsa það sama því hún hringdi í mig fyrir þremur mánuðum og sagðist þurfa að hitta mig varðandi nýjan veitingastað og hingað erum við komin,“ segir Tómas en staðurinn er á Austurvegi 3, í sama húsi og Krónan.

Frábærar viðtökur
„Staðurinn opnaði föstudaginn 12. júlí og hafa viðtökunar verið frábærar í safana, sjeikana, samlokunar, vefjunar og salötin. Fólk er ekki enn búið að kveikja á belgísku vöfflunum með ís, ávöxtum og alls konar sælgæti, sem eru alveg guðdómlega góðir réttir,“ segir Tómas og Elfa bætir við að það hafi virkilega gaman að þróa þessa rétti.

Elfa segir að þau Tómas hafi fundið að þetta hafi greinilega verið eitthvað sem vantaði í veitingaflóru Sunnlendinga – fljótafgreiddur, ódýr og hollur skyndibiti. „Við höfum fengið allskonar skemmtileg komment þar sem fólk þakkar okkur fyrir, bæði fyrir að hafa opnað flottasta djússtað á Íslandi og eins fyrir að þora að opna stað sem selur ekki kokteilsósu.“

„Skemmtilegasta kommentið er nú sennilega hjá einum sem sagðist bera vonir til þess að ég myndi ná af mér nokkrum kílóum og mér sýnist nú allt stefna í það,“ segir Tómas og hlær.

Hollur matur sem hentar öllum
Allir ættu að geta fengið eitthvað við sitt hæfi á Vor. „Við erum með vegan rétti á matseðli og salötin okkar eru glúteinlaus. Í haust munum við auka enn framboðið á réttum og einhverjar nýjungar munu líta dagsins ljós,“ segir Elfa.

Aðspurð út í markhópinn segir Elfa að viðskiptavinirnir séu enn sem komið er frekar í yngri kantinum. „En að sjálfsögðu hentar hollur matur öllum aldurshópum. Svo eru nú belgísku vöfflurnar eitthvað sem allir eiga eftir að elska,“ segir Elfa að lokum.

Fyrri grein„Tvö núll, hreint lak, þrjú stig, ánægður“
Næsta greinLiðsauki frá Árnessýslu sendur í Hafnarfjörð