Þollóween fékk hvatningarverðlaun Heimilis og skóla

Aðstandendur Þollóween ásamt fulltrúum Heimilis og skóla og Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Ljósmynd/Heimili og skóli

Bæjarhátíðin Þollóween í Þorlákshöfn hlaut á dögunum hvatningarverðlaun Heimilis og skóla árið 2019. 

Hópur foreldra stóð fyrir Þollóween í fyrsta sinn síðastliðinn vetur í samvinnu við skóla og stofnanir bæjarins.

Dagskráin, sem bæði var ætluð börnum og fullorðnum, samanstóð af viðburðum sem dreifðust á heila viku. Á dagskrá var m.a. grikk eða gott, hrollvekjusýning, skelfileg skrautsmiðja, ónotanleg sundstund í sundlauginni, Þollóween-ball og taugaslakandi jóga, svo fátt eitt sé nefnt.

Einnig var unnið með þemað í kennslu nemenda. Danskennari kenndi hryllingsdans, unnar voru hryllingssögur og margt fleira gert í grunnskólanum. 

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að hópurinn sem stóð að Þollóween hafi lagt á sig mikla vinnu og náð að skapa samheldni, samvinnu og skemmtun fyrir alla bæjarbúa en sérstaklega börn og fjölskyldur þeirra.

Auk Þollóween fengu Lestrarvinir í Víðistaðaskóla og Hrafnistu Hafnarfirði hvatningarverðlaun, en foreldraverðlaun ársins komu í hlut Hjólakrafts í Norðlingaskóla.

Fyrri greinÍbúum í Árborg fjölgar um 1,3 á dag
Næsta greinDiddú og drengirnir í Hlöðunni