Þjótandi bauð lægst í Oddaveg

Vegagerð. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þjótandi ehf átti lægsta tilboðið í endurbætur á Oddavegi á Rangárvöllum, sem vinna á að í sumar.

Tilboð Þjótanda hljóðaði upp á 77,2 milljónir króna og var það eina tilboðið sem var undir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar, sem var 79,3 milljónir króna.

Þrjú önnur sunnlensk verktakafyrirtæki buðu í verkið. Steypudrangur í Vík bauð 80,3 milljónir króna, vörubílstjórafélagið Mjölnir 89,3 milljónir og Suðurtak bauð 97 milljónir króna í verkið.

Um er að ræða endurmótun á 2,8 km kafla á Oddavegi, frá Odda að Ártúnsvegi og á verkinu að vera lokið þann 1. október næstkomandi.

Fyrri greinSex mánaða fangelsi fyrir að aka próflaus
Næsta greinSektaður fyrir að aka á nöglum