Þjótandi bauð lægst í jarðvinnu hreinsistöðvarinnar

Ölfusá fyrir ofan Geitanes. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þjótandi ehf átti lægsta tilboðið í jarðvinnu fyrir hreinsistöð fráveitu í Ölfusá við Geitanes, neðan við Selfoss.

Tilboð Þjótanda hljóðaði upp á 145,6 milljónir króna og var 62,8% af kostnaðaráætlun Sveitarfélagsins Árborgar. Þrjú önnur fyrirtæki buðu í jarðvinnuna og voru öll tilboðin undir kostnaðaráætlun. Stórverk ehf bauð 152,5 milljónir króna, Borgarverk 167,2 milljónir og Gröfutækni 179,9 milljónir króna. Kostnaðaráætlun Árborgar var 232 milljónir króna.

Á fundi bæjarráðs í síðustu viku var samþykkt að ganga til samninga við Þjótanda. Þessum verkhluta hreinsistöðvarinnar á að vera lokið í apríl 2023 en þess má geta að málefni hreinsistöðvarinnar hafa verið í vinnslu frá árinu 2013.

Fyrri greinUSVS hlaut Fyrirmyndarbikarinn
Næsta greinSamkaup innkalla tortillaflögur