Þjórsá bólgin af ís á löngum kafla

Urriðafoss er ekki sjáanlegur en hann liggur undir þykkri íshellu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gríðarmikill ís er á Þjórsá eftir frosthörkur síðustu vikna. Urriðafoss er óþekkjanlegur, þar sem hann liggur undir þykkri íshellu.

„Áin er orðin mikið bólgin, hún hefur svosem farið hærra, en þetta er það sem gerist í miklum og langvarandi frosthörkum. Hún stíflast við Þjórsárhraunhaftið fyrir ofan Ferjunes og það er mikil krapamyndun í henni,“ segir Einar Hermundsson í Egilsstaðakoti í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta er ansi mikið núna, áin er komin upp á tún hjá okkur niðri á sandinum en það hefur oft gerst áður. En mér sýnist hún líka ansi há á austurbakkanum,“ bætti Einar við.

Það spáir hláku á föstudaginn en útlit er fyrir að það kólni í veðri strax á laugardag og óvíst að mikil hreyfing verði á ísnum á einum sólarhring.

Hreppurinn umlukinn jökulám
Flóahreppur liggur á milli Þjórsár og Hvítár/Ölfusár að miklum hluta og segir Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri, að grannt sé fylgst með stöðu mála, bæði vegna Þjórsár og Hvítár.

„Aðstæður sem þessar geta haft áhrif víða í Flóahreppi enda liggja þessar tvær af vatnsmestu jökulám Íslands að sveitarfélagamörkum Flóahrepps á stóru svæði,“ segir Hulda í samtali við sunnlenska.is.

„Almannavarnardeild lögreglustjórans á Suðurlandi og Veðurstofa Íslands fylgjast með þróun mála og halda okkur vel upplýstum. Verði teljandi breytingar sem kalla á aðgerðir þá fáum við fréttir af því. Framhaldið byggist á veðrinu næstu daga en ef hlýnar þá geta árnar rutt sig og mögulega valdið því að þær flæði yfir bakkana á vissum svæðum,“ segir Hulda ennfremur.

Á bökkum Þjórsár við Egilsstaðakot. Eyjafjallajökull í baksýn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Áin flæðir yfir bakka sína og er komin upp á tún á söndunum fyrir neðan Egilsstaðakot. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSóknin hrundi í seinni hálfleik
Næsta greinSlapp við illan leik eftir að hafa fallið niður í gjá