Þjóðvegi 1 lokað í kvöld

Vík í Mýrdal. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Vegagerðin áætlar að loka Þjóðvegi 1 milli Hvolsvallar og Kirkjubæjarklausturs milli kl. 22:00 í kvöld og 11:00 í fyrramálið.

Þá má búast við að Þjóðveginum verði lokað í Öræfum kl. 18:00 í dag, til kl. 15:00 á morgun. Ráðgert að björgunarsveitir vakti hliðin frá kl. 18:00 í kvöld til miðnættis, og frá kl. 08:00 til opnunar á morgun.

Ofsaveður í Öræfum
Veðurstofan spáir norðaustan stormi eða roki síðdegis og í nótt og jafnvel staðbundnu ofsaveður í Öræfum. Dregur smám saman úr vindi á morgun en samgöngur milli landshluta geta farið úr skorðum og fólk er hvatt til að tryggja lausa muni til að fyrirbyggja foktjón og fylgjast með veðurspám og viðvörunum.

Appelsínugul viðvörun austan við Vík
Nú er í gildi gul viðvörun fyrir Suðurland frá kl. 18:00 í kvöld til kl. 12:00 á morgun. Gert er ráð fyrir norðan 18-23 m/s, en 23-28 undir Eyjafjöllum og austur í Mýrdal með vindhviður allt að 50 m/s. Ökumenn eru beðnir um að hafa varann á og líkur eru á foktjóni.

Gul viðvörun er nú í gildi fyrir Suðausturland og hefur viðvörunarstigið verið hækkað í appelsínugult frá kl. 18:00 í kvöld og fram yfir hádegi á morgun. Þar er spáð norðaustan 23-30 m/s í kvöld og nótt og vindhviðum allt að 45-55 m/s við fjöll frá Lómagnúpi til austurs að Höfn. Aðstæður til ferðalaga eru hættulegar og líkur á grjót og sandfoki.

Fyrri greinRannsaka mögulegar flutningsleiðir til landsins
Næsta greinKvenfélög gefa til HSU í Rangárþingi