Þingvallavegur opnaður formlega – Málþing í Hakinu

Þingvallavegur. Ljósmynd/GPM

Mánudaginn 16. september klukkan 14, á Degi íslenskrar náttúru, verður Þingvallavegur opnaður formlega eftir gagngerar endurbætur.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Ari Trausti Guðmundsson formaður Þingvallanefndar og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, klippa á borða við bílastæði um 5 km austan við þjónustumiðstöðina.

Að athöfn lokinni verður haldið stutt málþing í Hakinu klukkan 14:30 um tilurð og þýðingu vegarins. Boðið verður upp á kaffiveitingar.

Erindi á málþinginu halda Einar E. Á. Sæmundsen þjóðgarðsvörður, Óskar Örn Jónsson forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, Steinunn Garðarsdóttir sérfræðingur yndisgróðurs hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.

Vegagerð í þjóðgarði
Framkvæmdin á Þingvallavegi er um margt sérstök. Vegurinn liggur í þjóðgarðinum Þingvöllum sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Þingvellir og Þingvallavatn eru á Náttúruminjaskrá og framkvæmdasvæðið er innan vatnasviðs Þingvallavatns sem er verndað með lögum. Þá liggur Þingvallavegur á eldhrauni og fer í gegnum birkiskóg. Því var framkvæmd endurbótanna bundin ýmsum verndarákvæðum og afar áhugavert að sjá hvernig hönnun vegarins og framkvæmd endurbótanna tóku tillit til hinnar viðkvæmu náttúru í þjóðgarðinum.

Vallavegur verður botnlangi
Samhliða opnun endurbætts Þingvallavegar verður Vallavegur gerður að botnlanga, en vegurinn var nýttur sem hjáleið meðan á framkvæmdum stóð. Eingöngu verður hægt að fara inn á Vallaveg við norðurenda hans. Þessi breyting er gerð í samræmi við stefnumörkun Þingvallanefndar og miðar að því að bæta upplifun og auka öryggi.

Fyrri greinFlug sem almenningssamgöngur
Næsta greinUmhverfisráðherra heimsótti Bláskógabyggð