Þingvallavegur formlega opnaður

Ari Trausti, Bergþóra og Sigurður Ingi klipptu á borða á veginum. Ljósmynd/Vegagerðin

Þingvallavegur var formlega opnaður í dag, á Degi íslenskrar náttúru. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Ari Trausti Guðmundsson formaður Þingvallanefndar og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar klipptu á borða á veginum sem hefur verið endurbættur verulega á átta kílómetra kafla frá þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum og í austurátt.

Sérstæð framkvæmd í viðkvæmri náttúru
Framkvæmdin á Þingvallavegi er um margt sérstök. Vegurinn liggur í þjóðgarðinum Þingvöllum sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Þingvellir og Þingvallavatn eru á Náttúruminjaskrá og framkvæmdasvæðið er innan vatnasviðs Þingvallavatns sem er verndað með lögum. Þá liggur Þingvallavegur á eldhrauni og fer í gegnum birkiskóg. Því var framkvæmd endurbótanna bundin ýmsum verndarákvæðum.

Vegna þess hve framkvæmdin þótti sérstök var haldið stutt málþing í Hakinu að lokinni vígslu vegarins. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra fagnaði framkvæmdinni og fór einnig yfir þau stóru verkefni sem framundan eru í samgöngum á landinu. Einar Einar E. Á. Sæmundsen þjóðgarðsvörður hélt sögulegt yfirlit yfir vegagerð í þjóðgarðinum allt frá landnámsöld. Óskar Örn Jónsson forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar fór yfir framkvæmdina sjálfa sem þykir hafa lukkast afar vel og Steinunn Garðarsdóttir sérfræðingur yndisgróðurs hjá Landbúnaðarháskóla Íslands ræddi um aðkomu skólans að framkvæmdinni en LBHÍ vann gróðurfarsskýrslu fyrir Vegagerðina.

Vallavegur gerður að botnlanga
Samhliða opnun endurbætts Þingvallavegar verður Vallavegur gerður að botnlanga, en vegurinn var nýttur sem hjáleið meðan á framkvæmdum stóð. Eingöngu verður hægt að fara inn á Vallaveg við norðurenda hans. Þessi breyting er gerð í samræmi við stefnumörkun Þingvallanefndar og miðar að því að bæta upplifun og auka öryggi.

Fyrri greinLítið hlaup í Skaftá
Næsta greinPilturinn fundinn heill á húfi