Þingheimur minntist Jóns Helgasonar

Jón Helgason, fyrrverandi þingmaður Suðurlands, lést að kvöldi þriðjudagsins 2. apríl sl. á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri, 87 ára að aldri.

Jón Helgason var fæddur í Seglbúðum í Landbroti 4. október 1931. Foreldrar hans voru hjónin þar, Helgi Jónsson bóndi og Gyðríður Pálsdóttir húsfreyja.

Jón ólst upp í Seglbúðum við sveitastörf og bjó þar nær alla ævi. Hann var námsmaður góður, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950, en ekki varð af frekara skólanámi. Eftir óvænt andlát föður hans hvarf hann til heimahaga, stóð fyrir sauðfjárræktarbúi móður sinnar í Seglbúðum og varð bóndi þar 1959. Hann fékkst auk þess við kennslu í sveitinni á árunum 1966–1970.

Jón hóf ungur að árum afskipti af stjórnmálum, skipaði sér þá í raðir framsóknarmanna, starfaði í félögum þeirra á heimaslóðum og varð síðar einn af forustumönnum kaupfélagsins þar. Hann var kosinn í hreppsnefnd 1966 og sat þar í 20 ár, þar af oddviti í 10 ár. Hann var valinn í forustusveit samtaka bænda á landsvísu, sat á búnaðarþingi, á fundum Stéttarsambands bænda, átti sæti í framleiðsluráði og stjórn stofnlánadeildar. Hann var formaður Búnaðarfélags Íslands 1991-1995.

Jón tók fyrst sæti á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn sem varaþingmaður í mars 1972 en var síðan kjörinn alþingismaður í kosningunum 1974 og sat samfellt á þingi í rúm 20 ár, eða til ársins 1995, samtals á 25 löggjafarþingum. Hann var landbúnaðar-, dóms- og kirkjumálaráðherra á árunum 1983–1987 og landbúnaðarráðherra 1987–1988.

Jón var forseti sameinaðs þings árin 1979-1983, forseti efri deildar 1988-1991 og varaforseti bæði í efri deild og á sameinuðu Alþingi á nokkrum þingum.

Guðjón Brjánsson, 1. varaforseti Alþingis, minntist Jóns við upphaf þingfundar í dag og að loknum minningarorðunum reis þingheimur úr sætum sínum.

Fyrri greinSnæfríður Sól tvöfaldur Íslandsmeistari
Næsta greinSautján Selfyssingar í landsliðsverkefnum